139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

koma hvítabjarna til landsins.

[10:46]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra en bið jafnframt hæstv. iðnaðarráðherra að leggja við hlustir. Fyrirspurnin lýtur að þeim tíðindum sem hafa borist á undanförnum árum um auknar heimsóknir hvítabjarna til landsins, sérstaklega á Hornströndum þar sem við vitum að eru skráðar allmargar slíkar heimsóknir síðustu ár. Óstaðfest tilkynning barst fyrir þremur árum um hugsanlega tvo birni þar á ferð og síðan gekk núna einn í flasið á bátsverjum undan landsteinum.

Á Hornströndum er vænlegt ferðamannasvæði og þar eru áform um umtalsverða uppbyggingu og aukningu í ferðaþjónustu. Þar eru margar skipulagðar gönguferðir með ferðahópa yfir sumartímann en hins vegar eru engar formlegar skráningar á mannaferðum þarna og ekki eftir því sem ég best veit formlegt eftirlit með hvítabjarnaferðum sem ástæða er til að ætla að séu kannski tíðari en staðfest dæmi eru um. Fróðir menn á Grænlandi segja að fyrir hvern einn björn sem sést séu nokkrir aðrir á sveimi. Ekki ætla ég að fullyrða að svo sé á Íslandi en þannig er það á Grænlandi.

Hins vegar er full ástæða til að hafa árvekni, finnst mér, í þessu máli og nú langar mig til að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hann sjái ekki ástæðu til að það verði sest yfir þetta, jafnvel milli ráðuneyta og með viðbragðsaðilum, og farið aðeins yfir málið. Eru t.d. uppi einhver áform um að taka upp reglulegt eftirlit með hvítabjarnaferðum og/eða taka upp lögskylduga skráningu eða tilkynningarskyldu með ferðum (Forseti hringir.) ferðamanna.