139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

afturvirkni laga.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð þegar ég heyri að þingmenn glugga í gamlar vefsíður hjá mér. Þessi var frá 2003 og það er auðvitað margur fróðleikur þar [Hlátur í þingsal.] sem er alveg ástæða til að fara yfir og vekja athygli á annað slagið í þingsölum eins og hv. þingmaður er að gera hér.

Það mál sem hv. þingmaður reifar — hann var að ræða um vaxtabætur, er það ekki rétt? — er að þarna væri um afturvirkni að ræða. Ég hef tekið eftir þessu, haft af því áhyggjur og er að láta skoða hvort það standist að gera þetta svona vegna þess að þetta er íþyngjandi, það er alveg rétt. Þess vegna hef ég látið skoða þetta og fara yfir hvort það geti staðist. Ég vona að ég fái niðurstöðu mjög fljótlega vegna þess að ef svo er ekki verður málið að sjálfsögðu leiðrétt.