139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að sá landsdómur sem hér er lagt til að starfi áfram mun aðeins fjalla um eitt mál, það eina mál sem þegar hefur verið vísað til landsdóms. Hann mun ekki sem slíkur fjalla um önnur mál, eitt eða fleiri.

Hvað varðar samkvæmni milli dómenda þá þori ég ekki að spá neinu um það. Ég sé ekki að það sé meiri hætta á því með þessu móti en öðru. Þvert á móti er þetta samkvæmt réttarvenju og fordæmi eru fyrir því að ekki sé verið að skipta um dómendur í dómi, svo sem eins og félagsdómi, og eins og hér er lagt til í landsdómi, eftir að dómur hefur tekið til starfa. Þetta er auðvitað eitt aðalatriði þessa máls og eins og bent er á telur meiri hlutinn að málsmeðferð fyrir landsdómi verði með þessum hætti í samræmi við meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð.

Ég hlýt líka að vekja athygli hv. þingmanns á því að verði frumvarp þetta ekki að lögum mundi það þing sem nú starfar þurfa að kjósa dómara til að fjalla um það mál sem þegar hefur verið vísað til landsdóms af þessu sama þingi. Ég leyfi mér að fullyrða að slíkt mundi hvergi þykja standast kröfur um réttláta málsmeðferð. Því er nauðsynlegt, að mati meiri hluta allsherjarnefndar, að samþykkja þetta frumvarp og framlengja kjörtímabil þeirra dómara sem skipaðir voru og kosnir af Alþingi í maí 2005, af þeim þingmönnum sem þá sátu, en síðan hafa farið fram tvennar alþingiskosningar eins og hv. þingmanni er kunnugt.