139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[18:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið við andsvarinu. Já, hvaðan fengu þeir þessa hugmynd? Það held ég að sé rannsóknarinnar virði að finna út. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar varðandi Economic Programme og verð að viðurkenna að það hringir nokkrum bjöllum.

Mig langar að skora á hv. þingmann, ef hann hefur einhvern tíma, að lesa gaumgæfilega athugasemdirnar í lok frumvarpsins. 2. mgr. er mjög sérstök að mínu viti og eftir því sem ég les hana oftar held ég að ég botni bara hreinlega minna og minna í henni þannig að ég ætla að hætta að lesa hana.

Ég sagði hins vegar frá því í ræðu minni áðan að 1974 hefði komið upp sú staða að einn ráðherra ríkisstjórnar þess tíma studdi ekki frumvarp sem átti að leggja fram og svo fór að þáverandi forsætisráðherra — það hlýtur að hafa verið forsætisráðherra en ég er ansi gleyminn — lagði fram málið sem þingmannamál. Sjálfstæðisflokkurinn hefur líklega einna lengst farið með forsætisráðherraembættið í ríkisstjórnum, að minnsta kosti síðustu áratugina, þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann kannist við það að mál sem ekki er sátt um í ríkisstjórn hafi verið flutt af forsætisráðherrum Sjálfstæðisflokksins þvert á ráðherra. Þekkist það að slíkt hafi verið gert á síðari tímum? Við vitum að málið frá (Forseti hringir.) 1974 var í sjálfu sér einstakt, að ég held.