139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Líkt og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vil ég taka til umræðu stjórnmálaumræðuna hér á þingi og í landinu og þá orðræðu sem viðhöfð er af hálfu m.a. hv. þingmanna í garð hvers annars. Ég er þeirrar skoðunar að það sé fullkomlega eðlilegt að menn takist hart á í stjórnmálum og þá ekki síst í kjölfar efnahagshruns og við þær aðstæður þegar í landinu er við völd ríkisstjórn sem hefur það að meginmarkmiði að breyta þjóðskipulaginu. En sú umræða og þau átök þurfa að mínu mati að vera málefnaleg og byggjast á rökum en ekki persónulegum svívirðingum. Því miður hefur sú verið raunin upp á síðkastið. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að sá munnsöfnuður sem hefur verið viðhafður í nýlegri umræðu gengur gjörsamlega fram af manni og jafnast á við það versta sem maður sér í nafnlausum skrifum á veraldarvefnum.

Ég verð að segja að þær svívirðingar sem maður hefur horft upp á undanfarið eru þess eðlis að ég man vart eftir því að hv. þingmenn hafi þurft að sitja undir öðru eins, a.m.k. síðan ég settist inn á þing árið 2003. Og þegar hv. þingmenn fá tækifæri til þess að biðjast afsökunar eða draga orð sín til baka gera þeir það með þeim hætti að biðja það kúakyn sem þeir viku að afsökunar og segja að þeir hafi ekki viljað koma óorði á það.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það á enginn, hvorki þingmaður né einstaklingar í þjóðfélaginu, að þurfa að sæta því sem hv. þingmenn hafa þurft að sæta (Forseti hringir.) á undanförnum dögum í umræðu. Vilji menn efla virðingu Alþingis þarf eitthvað að gerast hér og ég óska eftir því að hæstv. forseti grípi til aðgerða til að stjórnmálaumræðan, bæði á Alþingi og fyrir utan þingið, komist á örlítið hærra plan en það er núna.