139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

stuðningur ríkisins til starfsendurhæfingar.

587. mál
[15:22]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur beint til mín fyrirspurn í nokkrum liðum er lýtur að starfsendurhæfingarmálum. Eins og fram kemur í nýlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengdri kjarasamningum á almennum vinnumarkaði ríkir almennt samkomulag um mikilvægi uppbyggingar markvissrar starfsendurhæfingar. Almenn þátttaka og virkni á vinnumarkaði er þýðingarmikil fyrir okkur öll eins og fram kom í máli málshefjanda og viljum við því draga úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði og örorku eftir því sem mögulegt er.

Frá árinu 2008 hefur fyrirkomulagið verið með þeim hætti að stjórnvöld hafa markvissara en áður gert samninga við fyrirtæki sem hafa boðið upp á starfsendurhæfingu. Samningarnir hafa fjallað um að veita tilteknum fjölda fólks atvinnutengda endurhæfingu. Fyrirtækin eru í flestum landshlutum og hafa það að markmiði að styðja fólk sem vegna heilsubrests hefur hætt þátttöku á vinnumarkaði eða er öryrkjar í að verða aftur virkt á vinnumarkaði eða hefja nám. Umfang starfsendurhæfingar hefur farið ört vaxandi á síðustu árum. Á árinu 2007 var varið tæpum 110 milljónum í starfsendurhæfingu. Ári síðar tvöfaldaðist fjárhæðin og varð rúmar 220 milljónir og árið 2009 var aftur um það bil tvöföldun á útgjöldum milli ára og námu þau tæpum 400 milljónum. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 2010 urðu útgjöldin svipuð og árið áður, þ.e. um það bil 410 milljónir.

Virðulegi forseti. Stjórnvöld hafa lagt allt kapp á að hlúa að starfsendurhæfingu í landinu. Sú keyrsla sem hefur verið á málaflokknum hefur að sönnu ekki verið í samræmi við framlög á fjárlögum. Engu að síður hefur áhersla verið á að leysa málin og nýta alla mögulega fjármuni sem fyrir eru, og voru, innan kerfisins. Það hefur tekist hingað til, en sú staða er komin upp að ekki verður gengið lengra í þeim efnum og verðum við því að leita annarra leiða. Þau framlög sem fyrir eru í fjárlögum þessa árs, að fjárhæð 319 millj. kr., duga ekki fyrir óbreyttum samningi út árið.

Ég vil jafnframt taka fram að uppbyggingu starfsendurhæfingar var hlíft í þeim sparnaði sem stofnanir ríkisins hafa þurft að mæta á undanförnum tveimur árum, eins og þær rauntölur sem ég hef farið hér yfir sýna. Stendur þriðja árið yfir núna. Ég hef hins vegar lagt á það áherslu í samskiptum ráðuneytisins við starfsendurhæfingarmiðstöðvarnar og aðra þá sem ráðuneytið hefur samninga við um veitingu starfsendurhæfingar að unnið sé að lausnum og stendur yfir vinna til að skoða þær leiðir sem hugsanlega eru færar í þeim efnum. Við það stend ég hér, enda þótt ég geti ekki í dag lofað hvert framhaldið verður. Í þessu sambandi vil ég nefna að það er fullur vilji til að tryggja áframhaldandi rekstur starfsendurhæfingarstöðva, en mér þykir ólíklegt að hann geti verið óbreyttur með öllu. Við lifum á tímum sparnaðar og hagræðingar í öllum ríkisrekstri og gildir það einnig um samninga sem ríkið gerir um veitingu þjónustu innan velferðarkerfisins okkar. Þetta veit hv. þingmaður mörgum öðrum betur þar sem hann er í fjárlaganefnd.

Í lokin undirstrika ég að ríkisstjórnin lagði á það áherslu í yfirlýsingu sinni um nýgerða kjarasamninga að atvinnulífið í heild komi að uppbyggingu starfsendurhæfingar í landinu ásamt stjórnvöldum og lífeyrissjóðum. Um það verður væntanlega flutt lagafrumvarp fljótlega þar sem við styðjum við þá viðleitni þessara aðila vinnumarkaðarins.

Til að fylgja því eftir mun ég á allra næstu dögum, í framhaldi af kjarasamningunum, skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála. Er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki fyrir 1. nóvember nk. Þar verður meðal annars fjármögnun starfsendurhæfingar rædd sérstaklega. Ég legg áherslu á að þessi mál verði öll skoðuð í samhengi og reynt að tryggja að kerfið sem út kemur verði heildstætt þar sem allir eigi jafna möguleika, hvort sem þeir eru í atvinnuleit í gegnum Samtök atvinnulífsins og aðila vinnumarkaðarins eða þurfa af öðrum ástæðum á þessari þjónustu að halda.

Varðandi þessa skipulagsbreytingu vísa ég líka til kostnaðarþátttöku stjórnvalda í starfsendurhæfingarsjóði. Það er það sem þarf að koma til umræðu og þeirri vinnu þarf að ljúka fyrir 1. nóvember. Meðan á þeirri vegferð stendur vonast ég til að við getum fundið bráðabirgðalausnir svo unnt sé að framlengja þá samninga sem þegar eru í gildi við starfsendurhæfingarstöðvarnar, enda þótt það kunni að vera í einhverri breyttri mynd út árið. Eins og staðan er í dag er fjármagnið hins vegar ekki fyrir hendi og ætla ég því ekki að lofa hér upp í ermina á mér og segja að málið sé í höfn. Það er samt unnið hörðum höndum að því að finna lausnir þannig að hér þurfi ekki að verða byltingar á síðustu mánuðum ársins.