139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[16:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna því sem mér finnst vera að gerast þrátt fyrir allt að umræðan um þetta er að verða yfirvegaðri og rólegri og menn taka hver eftir annan undir það með ýmsum hætti að þegar við fjöllum um Landhelgisgæsluna eigum við að hafa til hliðsjónar öryggishlutverk hennar annars vegar og hins vegar hina skynsamlegustu nýtingu þeirra takmörkuðu fjármuna sem fyrir hendi eru, en ekki byggðahagsmuni hversu sárir sem þeir kunna annars að vera. Þeir eiga ekki heima í þessari umræðu.

Ég tel, eins og hæstv. innanríkisráðherra, vel hugsanlegt að Miðnesheiði verði til framtíðar betra aðsetur flugkostar Landhelgisgæslunnar en Reykjavíkurflugvöllur nú, ekki síst vegna þess að ekki er víst að Reykjavíkurflugvöllur standi um aldur og ævi. En ég tel óárennilegt og óskynsamlegt, að minnsta kosti í bili, að flytja aðra starfsemi Gæslunnar frá höfuðborginni og rjúfa þar með meðal annars nýorðna samstarfsskipan í Skógarhlíðinni sem menn hafa verið mjög ánægðir með og kostaði töluvert að koma á fót.