139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

Schengen-samstarfið.

779. mál
[16:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Aldrei vildi ég Schengen en sem innanríkisráðherra lít ég á það sem hlutverk mitt að gera hið besta úr Schengen-samstarfinu sem nokkur kostur er fyrir okkur. Ég er fylgjandi því að fram fari ítarleg úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins á íslenskt þjóðfélag og minni á að fyrirliggjandi er þingsályktunartillaga þess efnis sem ég lýsti yfir í umræðu að ég styddi. Við þurfum hins vegar að tryggja fjármuni til slíkrar rannsóknar og þá horfi ég til Alþingis sem fjárveitingavalds.

Innanríkisráðuneytið hefur með formlegum hætti tekið undir gildi þess að meta gildi Schengen-samstarfsins með því að vönduð og heildstæð úttekt fari fram á áhrifum Schengen-samstarfsins og jafnframt að könnuð verði sérstaða Íslands sem eyríkis innan Schengen-samstarfsins og hvaða möguleikar séu á sérstökum úrræðum til að tryggja landamæri Íslands.

Ég tek undir ábendingar hv. þingmanns um umræðu um sama efni sem nú fer fram á Norðurlöndum og hann vísar sérstaklega til ábendinga landssambands norskra lögreglumanna og umræðu sem fram fer í Noregi um nákvæmlega þetta efni.

Ég held að við getum öll verið sammála um að Schengen-samstarfið hefur bæði kosti og galla og það þarf að fara vandlega yfir það að hvaða marki það þjónar hagsmunum okkar. Menn hafa bent á innan lögreglunnar að Schengen-samstarfið sé gott að því leyti að það efli samvinnu lögreglu og dómsmálayfirvalda gegn skipulagðri glæpastarfsemi en það veldur mér áhyggjum að með þátttöku okkar í Schengen ber okkur að tryggja hindrunarlausa umferð án persónubundins landamæraeftirlits frá þeim ríkjum ESB sem eiga aðild að Schengen-samstarfinu auk EFTA-ríkjanna.

Ókostir Schengen sem fylgja afnámi landamæraeftirlits á innri landamærum Schengen-svæðisins eru í mínum huga þeir að afbrotamönnum er gert hægara um vik við háttsemi sína og við undankomu til annarra ríkja auk þess sem úrræði á borð við endurkomubann og farbann geta orðið næsta haldlítil þegar í hlut eiga brotamenn sem staddir eru innan svæðisins, þar með talið evrópskir borgarar sem staðráðnir eru í að koma til landsins aftur.

Það er mjög mikilvægt að halda því til haga í þessari umræðu að frelsi ríkisborgara EES-ríkjanna og aðstandenda þeirra til vinnu og dvalar hér á landi er réttur grundvallaður á EES-samningnum en ekki Schengen-samstarfinu. Með aðildinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gilda hér á landi reglur hans um frjálsa för fólks innan svæðisins sem tryggja ríkisborgurum aðildarríkjanna, þar með talið íslenskum ríkisborgurum og aðstandendum þeirra, víðtækan rétt til að fara óhindrað milli EES-ríkjanna, hvort heldur er til heimsóknar eða lengri dvalar. Aðildarríkin hafa aðeins þröngar heimildir til að vísa EES-borgurum úr landi en þær heimildir eru tengdar sakaferli og framferði viðkomandi. Ég hef lagt áherslu á það í umræðu að undanförnu um hælisleitendur, um fólk sem er að leita eftir leyfi til dvalar á Íslandi, að þarna séum við harla mótsagnarkennd þegar við setjum það yfir á siðferðilegan kvarða. Annars vegar erum við með landið opið gagnvart hinu Evrópska efnahagssvæði en gerum fólki utan hins Evrópska efnahagssvæðis erfitt um vik. Það er staðreynd að við erum harla varnarlaus þegar kemur að fólki sem hingað hefur komið í vafasömum erindagjörðum ef það kemur frá EES-svæðinu þangað til það er hreinlega búið að brjóta af sér og jafnvel hafnar hér í fangelsi. Í íslenskum fangelsum er um fjórðungur fanga ekki frá Íslandi.

Spurt er að því hvort til standi að endurskoða aðild að Schengen-samstarfinu. Ég er því fylgjandi að gera fyrst úttekt og síðan komumst við að niðurstöðu. (Forseti hringir.)

Að lokum spyr hv. þingmaður hvort endurskoðun hafi farið fram á Schengen í ljósi tíu ára reynslu. (Forseti hringir.) Sú endurskoðun hefur ekki farið fram.