139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg æsinginn í hv. þingmanni. Þingmenn eru yfirleitt sammála um að nauðsynlegt sé að leiða til lykta og rannsaka mál er snúa að Alþingi og stjórnarathöfnum og þess háttar. Svo bregðast menn illa við þegar tillaga sem þessi kemur upp. Fundargerðin er að sjálfsögðu til. Ég verð að viðurkenna að í fundargerðinni er talað um að A hafi gert þetta og B hafi gert hitt. Ég verð hins vegar að segja við hv. þingmann að mig skiptir engu hvaða þingmaður gerði hvað. Ef þingmenn hafa stofnað lífi eða limum samstarfsmanna sinna, lögreglu eða einhverjum öðrum í hættu þá hljótum við að vera óhrædd við að leiða það í ljós, burt séð frá því hver á í hlut. Við sem flytjum þessa tillögu erum ekki að saka einn þingmann (Forseti hringir.) um eitt eða neitt. Þetta byggir hins vegar á gögnum og upplýsingum sem vitnað er í í greinargerðinni. Þingmaðurinn verður bara að kynna sér það.