139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það ekki ofbeldi að kasta eggi í hús en ég tel illa farið með eggin að gera það (Gripið fram í.) og ég sé reyndar engan tilgang í því sérstakan til að leggja áherslu á mótmæli sín, ekki nokkurn. Ég fæ það bara ekki heim og saman að það sé (Gripið fram í.) eitthvert áhersluatriði að kasta eggjum í fólk eða hús þegar maður er að mótmæla. (Gripið fram í.) Það er hægt að gera með allt öðrum hætti og ég gerði það með allt öðrum hætti ef ég tæki þátt í slíku.

Ég hef aldrei sakað Vinstri græna, þingflokk þeirra eða stjórnmálasamtökin um að hafa staðið fyrir þeim mótmælum sem hér voru. Ég hef ekki sakað þá um það. Ég hef bara sagt frá því sem ég heyrði og sá á göngum þingsins. (Gripið fram í.) Ég skil það ekki, ég fæ ekki skilið hvað er svona alvarlegt við það og af hverju fólk bregst svona við hér, hv. þingmenn, (Forseti hringir.) þegar verið er að tala um að rannsaka þetta ofan í kjölinn. Til þess eru ærnar ástæður sem eru tilgreindar í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) og ber þar kannski hæst ummæli og tilvitnanir í lögreglumenn.