139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:28]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er bara erfitt að ræða þetta mál áfram án þess að hafa fundargerðina. Það er óljóst enn þá vegna þess að hv. flutningsmaður málsins hefur ekki viljað upplýsa það hvort flutningsmennirnir lásu fundargerðina áður, en nú hafa komið fram þær upplýsingar að hv. þm. Jón Gunnarsson hafi sagt af henni sérstakar fréttir í einhverjum pistli. Ég hef ekki lesið þann pistil og ég veit ekki til þess að hv. þm. Jón Gunnarsson sé í forsætisnefnd nú eða hafi verið. Ég held að hann hafi aldrei verið í forsætisnefnd. Hvaðan komu honum upplýsingar um fundargerð forsætisnefndar sem við höfum ekki almennt og við umræðu um þetta mál? Ég held að það hljóti að vera svo að forseti þingsins, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem þingmenn kusu hér á sínum tíma sem sinn mann, sinn leiðtoga, hljóti að fá tækifæri til að koma og lýsa þetta mál fyrir okkur.