139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sá hv. þingmaður sem hér talaði hefur af alkunnu smekkleysi tekið orð sem hann segir að ég hafi látið falla, sett í gæsalappir eins og um beina tilvitnun í ritað mál sé að ræða og birt það þannig í því samhengi sem honum hefur þóknast trekk í trekk, bæði (Gripið fram í.) — já, því oftar, því oftar, hv. þingmaður, og bæði birt þau á vefmiðlum og í rituðum greinum. Svo kemur hann og segir: Það er ítrekað minnst á þetta. Þetta er mikið rætt meðal þingmanna. Þetta er mikið rætt meðal starfsmanna. Þetta er mikið rætt meðal lögreglunnar. Þetta eru rökin. Þetta er uppsprettan, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, að þeim leiðangri sem þú ert farinn í, (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður er farinn í.

(Forseti (KLM): Ég verð að biðja hv. ræðumann að beina ræðu sinni til forseta eins og hér er viðtekin venja um.)

Já, það skal ég gera, herra forseti.

Ég hlýt að mótmæla þeim orðum sem komu fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Hann sagði fyrr í dag að hann teldi að í búsáhaldabyltingunni hefði orðið mjög mikið ofbeldi þvert á það sem ég hefði talið, það voru hans orð. Ég sagði réttilega, og ég meina það, að miðað við þann mannfjölda og hita sem var þá var ofbeldið sem betur fer ekki mikið. Síðan sagði hv. þingmaður: Þegar liggja eftir slasaðir lögreglumenn þá verða menn að kannast við sín verk. — Ef þetta eru ekki ásakanir, herra forseti, og dylgjur um að sú sem hér stendur hafi valdið líkamsmeiðingum lögreglumanna þá skil ég ekki íslenskt mál.