139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið erfitt að halda ró sinni undir dylgjum sem þessum. Hv. þingmaður sagði fyrr í dag: Ef þingmenn hafa sett líf samstarfsmanna sinna í hættu eða lögreglunnar er sjálfsagt að rannsaka það. Nei, þetta er ekki spurning, hv. þingmaður, þetta er ekki spurning, þetta er fullyrðing (Gripið fram í: Nei.) og dylgjur á nákvæmlega sama hátt og hv. þm. Jón Gunnarsson sagði áðan að þegar liggi eftir slasaðir lögreglumenn verði menn að kannast við sín verk. Hvers konar eiginlega framganga er þetta hér?

Svarið sem ég hins vegar fékk, herra forseti, við fyrirspurn minni um um af hverju flutningsmenn væru að blanda ráðherraábyrgð inn í þetta var óttalega klént, svo notuð sé góð íslenska.

Þannig er nefnilega mál með vexti að sú sem hér stendur var heilbrigðisráðherra um stund og í þeim blaðagreinum sem hér er vitnað til er mikið úr því gert að bæði — eins og þá var — „núverandi heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra“ — því þetta var í desember 2009 — „munu hafa“ — eins og segir hér — „haft það við að veifa til þessa hóps út um glugga þinghússins og utan dyra að hvetja fólk þetta til dáða í stórhættulegum athöfnum og afbrotum. Margir lögreglumenn gengu frá þeim leik slasaðir og niðurbrotnir.“

Í greinargerðinni segir síðan, og það eru þá orð hv. þingmanns og flutningsmanna:

„Fara verður yfir hvort þingmenn og ráðherrar hafi farið út fyrir það sem talist getur réttur þeirra til að tjá sig og um leið hvort tilefni sé til að bregðast við framgöngu þessara aðila.“

Og síðar segir: „Þar sem mögulega kann að vera um að ræða athafnir sem varðað geta reglur laga um ráðherraábyrgð“ o.s.frv.

Ég held nefnilega að þegar hv. þingmaður var að skrifa þetta allt saman hafi sú sem hér stendur verið heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) og það kann að vera að hann hafi þá talið að þess vegna þyrfti að beita mögulega lögum um ráðherraábyrgð til að koma lögum yfir aumingjann mig. (Gripið fram í.)