139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki alveg sanngjarnt, þegar menn hafa 15 mínútur til ráðstöfunar í ræðu, að nota það hve lengi viðkomandi þingmaður talar um ákveðinn málaflokk sem mælistiku á það hvað menn telji mikilvægast. Ég hygg til dæmis að formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hafi nánast eytt allri ræðu sinni í að ræða Evrópusambandsmálið, en geri ég þó ekki ráð fyrir því að það sé vitni um það að það sé eina málið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja áherslu á í utanríkismálum.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að Norðurlandasamstarfið er að sjálfsögðu einn af hornsteinum í utanríkisstefnu okkar og á að vera það. Hagsmunir okkar á norðurslóðum eru gríðarlega ríkir. Við horfum á auðlindir okkar, sjávarauðlindina, sem er okkar mikilvægasta auðlind, og hagsmuni gagnvart henni. Við höfum líka talað um samstarf við grannþjóðir okkar hér í Norður-Atlantshafinu og á vestnorræna svæðinu, Grænland og Færeyjar, sem ég tel mjög þýðingarmikið. Samstarf okkar og starf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í stofnunum þess, meðal annars á sviði mannréttindamála, tel ég líka afskaplega þýðingarmikið.

(Forseti (KLM): Ég bið hv. ræðumenn að athuga að eitthvert ólag er á klukkunni í borðinu en við munum halda tímaskráningunni hér uppi.)