139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta kemur nú úr hörðustu átt frá þeim þingmanni sem hefur barist hvað mest fyrir Icesave-samningunum hvað sem þjóðinni þætti um þá samninga, frá þingmanni sem til þessa hefur helst viljað hafa vit fyrir þjóðinni í hinum ýmsu málum en ætlar núna með orðaleikjum að færa rök fyrir því að það sé í hans huga til margs konar sannfæring og þá eigi sú sannfæring að þjóðin eigi að ráða að gilda umfram annað. Þeirri afstöðu hefur þingmaðurinn ekki fylgt til þessa.

Eins og hv. þingmaður bendir á er ekkert nema gott um það að segja að menn skuli hafa svona mikinn áhuga á stefnu Framsóknarflokksins. Hún er alveg skýr; að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Svo geta menn haft sína skoðun á því hvernig best sé að tryggja að Ísland álpist ekki inn í Evrópusambandið.

Hvað varðar hins vegar þessa orðaleiki hv. þingmanns um þjóðaratkvæðagreiðsluna, þó að þeir komi úr hörðustu átt, velti ég því fyrir mér hvaða afstöðu menn ætla að taka til málsins ef þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin með þeim hætti að þátttaka verði t.d. mjög lítil, ég tala nú ekki um ef jafnilla færi og í atkvæðagreiðslunni um stjórnlagaþingið. Segjum sem svo að 36% landsmanna tækju þátt í atkvæðagreiðslunni og niðurstaðan yrði sú að 51% af þessum 36 vildi samþykkja aðild að Evrópusambandinu, hlýtur svo að vera að hv. þingmaður ætli engu að síður að fallast á niðurstöðu þessa 51% af 36%.

Það væri mjög fróðlegt að vita þetta svona í framhaldinu vegna þess að nú mun koma upp ýmis umræða um umdeild mál en hv. þingmaður mun þá hér eftir fylgja vilja meiri hluta (Forseti hringir.) almennings jafnvel þó að sá meiri hluti mælist ekki.