139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú alltaf svo að ef maður segir eitthvað tekur fólk það kannski allt of bókstaflega. Ég var að segja frá því að í heimsókn í þýska þinginu sagði þýskur þingmaður mér frá því, og okkur fleirum, að hann væri að reyna að ná þessu ofar á dagskrána í þinginu þá. Hann sagði: Það er bara ekki almennur áhugi á því meðal þingmanna. Það var ekki almennur áhugi á því sem þessi ágæti maður var að streða við.

Það breytir því ekki að auðvitað hefur þýska ríkið áhuga, þýska ríkisstjórnin situr í ráðinu og það var svona meira almennur áhugi sem hann var að tala um. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi þá staðreynd að þessi tillaga um norðurskautsmálin kemur seint. Það þýðir ekki að einhverjir menn hafi ekki lengi haft áhuga á því en kannski ekki náð áhuganum upp á það plan að ályktað væri um það. Ég var nú ekki með stórar yfirlýsingar um utanríkisstefnu Þýskalands með þessu, ég var bara að segja litla sögu.

Hvað varðar EES er staðreyndin einfaldlega sú að við erum ekki inni í herberginu þegar ákvarðanir eru teknar um það sem við síðan leiðum í lög. Hvað Norðmönnum finnst um það, ég veit það ekki, ég hugsa að mjög margir Norðmenn séu sammála mér og aðrir sammála hv. þingmanni. Ég kann ekki annað svar við því. (Forseti hringir.)

Þriðju spurningunni verð ég að svara í næsta andsvari.