139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var ákvörðun samninganefndarinnar að hafa það fyrirkomulag af því þeir skilgreindu best þau markmið sem uppi væru.

Aðeins um þann ógurlega misskilning sem er í gangi um meinta hraðferð inn í Evrópusambandið eða ekki hraðferð af því það var aldrei nokkurn tímann rætt um það, hvorki af hæstv. utanríkisráðherra né öðrum svo ég muni eftir, alla vega aldrei af ráðherranum, að við værum að fara á hraðferð inn í Evrópusambandið. Við vorum að sækja um, gerðum okkur vonir um að það ferli tæki tiltölulega stuttan tíma, þrjú til fjögur ár, af því að við værum EES-þjóð og partur af innri markaði og værum aukaaðilar að Evrópusambandinu og höfum verið í 17 ár.

Eins og ég rakti er líka mikil meinloka um að við séum að hægja á ferlinu núna. Það sem ég sagði áðan og í pistli mínum fyrir viku og var vitnað í áðan er að allt benti til að við værum á pari og stæðum jafnfætis þeim þjóðum, sem sagt Finnum og Svíum, sem hefðu farið hraðast inn af öllum aðildarþjóðunum 27. Þær fóru inn á rúmlega fjórum árum. Ef við förum inn á tæplega fjórum árum, segjum að við kjósum um samninginn í febrúar 2013, þá leiðum við málið til lykta hraðar en nokkur önnur þjóð sem hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Ef eitthvað er erum við á hraðferð inn í sambandið út frá sögulegum staðreyndum. En það er ekki það sem málið snýst um, það er að ná sem allra bestum samningi.

Það er stundum dapurlegt að í umræðunni, ekki bara á þingi heldur víðar, hefur allt kapp verið lagt á það hjá andstæðingum Evrópusambandsins að gera ferlið sem tortryggilegast, uppnefna það og reyna að varpa skugga tortryggni á það á sem flestum sviðum þegar mestu skiptir að ná sem bestum samningi. Líka er snúið út úr og sagt að menn vilji ganga í sambandið hvað sem það kostar. Það sem við höfum alltaf sagt og Samfylkingin samþykkti 2001 er: Sækjum um aðild, kjósum um hana og þá ræðst það hvort við eða aðrir styðjum aðildina sjálfa. (Forseti hringir.) En umsóknin skiptir mestu máli.