139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[19:01]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mannréttindi og markaðsbúskapur eru hvoru tveggja forsendur þess að nokkurt land geti orðið aðili að Evrópusambandinu eða umsókn um aðild verði tekin til greina. Nú hef ég ekki upplýsingar um styrkina og Tyrkland, en það má vel ímynda sér að drjúgur skerfur þeirra fari til þess stóra lands af því að Tyrkir eru svo langt á eftir akkúrat á sviði mannréttinda og annarra mála. Eins og þingmaðurinn veit hefur það land ekki fengið aðild að sambandinu þó að það hafi sótt um fyrir mörgum árum síðan af því það hefur ekki uppfyllt skilyrði um mannréttindi sem er algjört grundvallaratriði í Evrópusambandinu. Þar eru engin lönd nema þau sem byggja á lýðræði, mannréttindum og markaðsbúskap. Það er bara svoleiðis.

Hvað varðar tal um hraðferð og að við séum komin með samninginn heim 2011 o.s.frv. þá minnist ég þess ekki að það hafi nokkurn tímann verið sagt, en þingmaðurinn flettir því þá bara upp og kemur með það inn í umræðuna með nákvæmari hætt. Það er ekki hægt að svara fyrir það sem maður hefur ekki heyrt að lagt hafi verið upp með.

Það skiptir, eins og ég nefndi áðan, gríðarlega miklu máli að við einbeitum okkur að því að ná sem allra bestum samningi. Það er ekki bara ákvæðið um breiddargráðu sem við getum samið um til að bæta og verja stöðu landbúnaðarins heldur margt annað, eins og það sem ég nefndi áðan — sérstakar lausnir vegna landlegu o.fl. Í þessu felast gífurleg tækifæri fyrir landbúnaðinn.

Það má vel vera að kjúklingarækt færi verst út úr þessu en einn reyndasti svínabóndi á Íslandi hefur t.d. haldið því fram við mig að aðild og landnýtingarstuðningur Evrópusambandsins mundi gjörbreyta stöðunni hjá honum þannig að hann (Forseti hringir.) yrði samkeppnishæfur við það sem ódýrast er af því sem framleitt er í Evrópu.