139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[19:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna sem er um margt ágæt. Ég þarf hins vegar að kvarta yfir því hversu stuttan tíma við fáum til að ræða málið vegna þess að það er sannarlega margt um að ræða og umræðan hér í dag hefur litast af því hversu fyrirferðarmikið ESB-málið er. Það er eðlilegt og þess vegna hefði að mínu mati verið nauðsynlegt að taka þá umræðu sér, láta hin utanríkismálin njóta sín, ef svo mætti segja, í þessari umræðu vegna þess að af mörgu er að taka. Þess vegna ætla ég ekki að orðlengja þennan inngang frekar.

Í fyrsta lagi vil ég stuttlega nefna norðurslóðir. Við hæstv. utanríkisráðherra höfum oft áður átt ágætisorðaskipti um þau hér og ég ítreka að ég er ánægð með þá þingsályktun sem við samþykktum hér fyrir ekki svo löngu, en vil ítreka áhyggjur mínar sem ég hef viðrað hér áður og það sjónarmið mitt að við þurfum að hafa vakandi auga fyrir því að þrátt fyrir að allar þjóðir hafi einsett sér að á norðurslóðum skuli ríkja friður um ókomna tíð á sér stað hernaðaruppbygging. Ég ætla samt ekki að endurtaka þá umræðu sem við hæstv. ráðherra höfum átt hér áður.

Evrópusambandið hefur mikið verið rætt í dag og ég ætla ekki að endurtaka margt af því sem hér hefur farið fram. Ég vil þó segja hreint út að mér finnst þetta umsóknarferli vera allt saman í miklum vanda. Sá vandi var mikið til fyrirséður vegna þess að eins og hér hefur komið fram var ekki tekið undir það sjónarmið okkar sjálfstæðismanna, meðal annarra, þegar aðildarumsóknin var samþykkt að þjóðin fengi að greiða um það atkvæði hvort hún vildi á þeim tímapunkti beina kröftum sínum að þessari umsókn. Því var hafnað og það sem við vöruðum við hefur orðið að veruleika. Umsóknin er mjög munaðarlaus. Það er helst hæstv. utanríkisráðherra sem talar fyrir henni og flokksmenn hans (Gripið fram í.) en það er algjörlega ljóst að án pólitísks stuðnings ríkisstjórnar, ríkisstjórnar sem stendur heils hugar að baki þessari umsókn, er hún að mínu mati andvana fædd. Mér svíður að sjá allan þann tíma fara í þetta mál sem við gætum notað svo miklu betur í þarfari og brýnni málefni.

Mig langar að koma með nokkrar beinar spurningar til hæstv. utanríkisráðherra. Mikið hefur verið rætt um gengismál og þegar umsóknin var sett fram var mikið talað um að strax og umsóknin væri lögð inn mundi allt færast til betri vegar. Við fengjum strax að sjá áhrif þess á efnahaginn að við værum orðin umsóknarríki og í sambandi við gengissamstarf Evrópu, ERM II, spyr ég: Hvað líður því að koma Íslandi þangað inn? Eins og ég skildi í aðdraganda umsóknarinnar átti þetta einmitt að vera einn af kostum þess að við gætum hafið þátttöku í því samstarfi um leið og við yrðum umsóknarríki.

Einnig spyr ég um styrkjamálin, IPA-styrkina svokölluðu. Á bls. 28 í skýrslu ráðherra er vel útskýrt hvernig þetta allt saman fer fram og segir þar, með leyfi forseta:

„Til grundvallar allri IPA-aðstoð er lögð svokölluð heildaráætlun fyrir hvert umsóknarríki, sem framkvæmdastjórnin útbýr að höfðu samráði við og á grundvelli óska frá viðkomandi ríki.“

Hvar er slík heildaráætlun fyrir okkur? Getum við fengið að sjá hana? Hefur hún verið gerð?

Einnig vil ég spyrja um styrkina sjálfa. Hvernig líður því máli? Hver er staðan varðandi styrkina? Hvaða ráðuneyti lögðu inn umsóknir? Voru það ráðuneyti sem vinstri grænir ráðherrar hafa umsjón með og bera ábyrgð á? Stóð VG við samþykkt flokksráðs síns? Það er kannski spurningin sem ég ætti að spyrja: Ef einhver ráðuneyti gerðu það ekki, voru þá einhverjir aðrir sem sóttu um þessa styrki í stað þeirra?

Mig langar líka aðeins að víkja að kostnaðaráætluninni sem var gerð og ég hafði miklar efasemdir um á sínum tíma þegar við ræddum umsóknina. Kostnaðaráætlunin var upp á 1.000 millj. og á bls. 30 er mikið rætt um að gert er ráð fyrir að þetta verði innan áætlunar. Þó verð ég að biðja hæstv. utanríkisráðherra um skýringar á þversögn sem mér sýnist vera hérna. Neðarlega á bls. 30 segir, með leyfi forseta:

„Ekki er útlit fyrir annað en að kostnaður við umsóknarferlið verði innan áætlunar.“ — Síðan er fjallað aðeins meira um það en í næstu efnisgrein segir:

„Umsóknarferlinu er þannig háttað að erfitt er að sjá nákvæmlega fyrir heildarkostnað vegna einstakra þátta.“

Í fyrri málsgreininni segir að þetta gangi allt saman óskaplega vel og í þeirri seinni er sagt að það sé ekkert hægt að áætla um þetta. Hvort er rétt? Síðan verð ég að gera athugasemd og vona að hæstv. ráðherra taki þá sem skrifuðu þessa setningu aðeins á teppið. Hér segir, með leyfi forseta:

„Kostnaðareftirlit utanríkisráðuneytisins með umsóknarferlinu er strangt og verður Alþingi gert viðvart ef útlit er fyrir að kostnaður verði meiri en gert var ráð fyrir.“

Ég minni hæstv. utanríkisráðherra á að Alþingi hefur fjárveitingavaldið þannig að það þarf að gera mun meira en að gera Alþingi viðvart um framúrkeyrslu. Það þarf að leita heimilda ef kostnaðurinn fer eitthvað fram úr. Nú er ég búin að eyða miklu meiri tíma en ég ætlaði í Evrópusambandið og ætla að víkja frá því og fjalla aðeins um öryggis- og varnarmálin.

Varnarmálastofnun hefur verið mér mjög hugleikin. Hér kemur skýrt fram, sem maður vissi reyndar, að verkefnisstjórnin sem átti að leggja þá stofnun niður hefur ekki komist að samkomulagi um það hvert ætti að flytja verkefni þessarar stofnunar. Það er ítrekað hér að niðurlagning stofnunarinnar muni ekki hafa áhrif á varnar- og öryggisskuldbindingar okkar. Liggur það alveg fyrir? Hafa Vinstri grænir samþykkt að engin breyting verði á þeim? Getur verið að ástæða þess að ekki er búið að koma þessum málum í endanlegt horf sé einmitt þessi ágreiningur á milli flokkanna? Getur hæstv. ráðherra farið yfir það? Enn hefur ekki tekist að færa fyrir því rök af hverju það þurfti að leggja Varnarmálastofnun niður. Við erum með þessi verkefni og því er lýst ágætlega hvar þau eru til bráðabirgða. Enn hefur enginn sýnt fram á það með nokkrum rökum að öryggis- og varnarmálum íslensku þjóðarinnar sé betur farið núna eftir niðurlagningu stofnunarinnar en áður. Allt þetta verklag hef ég margoft farið yfir hérna og ekki batnar það við nýja skoðun.

Síðan vil ég aðeins ræða um þingsályktunartillöguna um mótun þjóðaröryggisstefnunnar sem við ræddum hér ekki alls fyrir löngu. Það kemur mér satt að segja á óvart í skýrslunni — ég biðst velvirðingar, ég ætla ekki að móðga hæstv. ráðherra, en mér finnst rökstuðningurinn vera dálítið barnalegur. Það er sagt á bls. 48 að þetta sé í fyrsta skipti sem lagt er til að Alþingi komi að mótun þjóðaröryggisstefnu um það, með leyfi forseta, „hvernig sjálfstætt Ísland tryggi öryggi sitt og fullveldi án þess að deilumál fortíðar varpi þar skugga á“. Þá spyr ég: Af hverju í ósköpunum ætti það að vera hægt núna frekar en áður? Hafa Vinstri grænir sætt sig við að við séum í NATO? Hefur ráðherra eitthvað fyrir sér með það að þeir muni ekki gera athugasemdir við þetta? Ég get algjörlega sagt hér að ef það er einhver forsenda fyrir sögulegri sátt í öryggis- og varnarmálum að við hverfum frá því góða bandalagi verð ég ekki aðili að þeirri sátt.

Frú forseti. Ég ítreka að þessi tími er allt of skammur, ég hefði getað haldið lengri ræðu.