139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að svo virðist sem ég hafi misskilið þetta mál alveg frá upphafi. Ég stóð í þeirri meiningu að lykilaðdráttarafl Evrópusambands- þótt ekki væri nema -umsóknarinnar væri að við kæmumst strax í skjól, við kæmumst þarna strax í samstarf. Mig furðar að hæstv. ráðherra segi að ákvörðun um ERM II verði ekki tekin fyrr en þjóðin hafi ákveðið að fara í Evrópusambandið. Það eru mörg ár þangað til, og vonandi gerist það ekki í minni tíð, en þetta er algjörlega þvert á það sem var haldið fram og hefur verið haldið fram allan tímann. Ef ekki stóð til að Ísland nýtti sér samstarf í gengismálum sem átti að vera stærsti kostur þess og að komast inn í evruna, komast inn í það samstarf, hvað sem mönnum kann að finnast um það núna, er einhver ekki búinn að segja satt allan tímann eða þá að ég hef misskilið þetta mál alveg frá upphafi. Ég bið forláts ef svo er.

Ég man eftir að hæstv. forsætisráðherra var ekki alls fyrir löngu spurð um gengismálið — það var verið að ræða mismunandi skoðanir þingmanna stjórnarflokkanna á gengismálum. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon vill krónuna, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason segir að krónan sé ekki á vetur setjandi — og hæstv. forsætisráðherra svaraði: Mín stefna er mjög skýr. Ég vil ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það mátti á henni skilja að það væri bara rétt handan við hornið. Það að ákvörðunin um það samstarf verði ekki tekin fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu og að niðurstaðan úr henni verði að þjóðin kjósi að ganga í sambandið (Forseti hringir.) eru mér nýjar fréttir.