139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þessar umræður eru að færast á skrýtið plan og ég get tekið undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að þetta átti akkúrat að vera ástæðan fyrir því að leggja umsóknina inn, að evran væri handan við hornið. En svona breytir Samfylkingin um skoðun og svona er kannski lítið að marka þann flokk, svo við tölum nú ekki um Vinstri græna. Nánast allt sem sagt hefur verið í sambandi við Evrópusambandsumsókn, aðild og aðlögunarferli er hvít lygi, má segja, því þegar við skoðum þessa skýrslu og þau svör sem berast þinginu núna er um allt annað að ræða en það sem lagt var upp með á vorþingi 2009 þegar umsóknin var til umræðu.

Hér liggur fyrir skýrsla utanríkisráðherra í utanríkismálum. Það sem mig langar til að tala um í þessari ræðu er í kafla II, um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, aðstoð ESB vegna aðildarumsóknar, loftslagsmálin, Þróunarsjóð EFTA og Schengen-samstarfið.

Komið hefur fram og birtist okkur alltaf betur og betur að þær fullyrðingar sem ég hafði uppi þegar umsóknin var til umræðu í þinginu um að undirliggjandi væri aðkoma Evrópusambandsins að norðurslóðum, voru réttar. Ísland er strandríki í Norður-Atlantshafi en þau lönd sem liggja að norðurslóðum og eru í Evrópusambandinu eru ekki strandríki. Ísland er því lykillinn að þessum slóðum fyrir Evrópusambandið. Eftirtektarvert er að meðal þeirra sjálfstæðu strandríkja sem liggja í Norður-Atlantshafinu, Noregs, Grænlands, Færeyja og Íslands, er Ísland eina umsóknarríkið. Þess vegna er mjög aðlaðandi fyrir Evrópusambandið að fá okkur þar inn. Eins og allir vita hafa Norðmenn fellt umsókn að Evrópusambandinu tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég var því mjög slegin fyrr í dag þegar ég fór í andsvör við hæstv. utanríkisráðherra og hann virtist ekki gera greinarmun á því hvað væri strandríki og hvað væri norðurslóðaríki. Mig langar því að lesa upp hvað hugtakið strandríki merkir, sérstaklega fyrir hæstv. utanríkisráðherra og svo þingmenn alla. Hugtakið strandríki er skilgreint sem sú þjóð er byggir öðrum þjóðum fremur afkomu sína á fiskveiðum og á sú þjóð forgangsrétt að þeim fiskimiðum sem á landgrunninu finnast. Í þessu sambandi langar mig að minna á, og oft er þörf en nú er nauðsyn, að Íslendingar ráða yfir 40% af heildarsjávarútvegsafla Evrópusambandsins. Því er eftir miklu að slægjast varðandi fiskveiðiauðlind okkar svo við tölum ekki um þá hagsmuni sem eru í húfi á norðurslóðum, siglingaleið, hugsanleg olía og fleira.

Mig langar að vitna í grein sem Valur Ingimundarson prófessor skrifaði ekki alls fyrir löngu. Hann hefur þetta um málið að segja, með leyfi forseta:

„Evrópusambandið hefur fengið meiri áhuga á norðurslóðum í samræmi við vaxandi strategískt mikilvægi svæðisins. ESB er að vinna að norðurslóðastefnu, en helstu þættir hennar hafa komið fram á síðustu tveimur árum. Framkvæmdastjórn ESB hefur sótt um fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu (ásamt Kína, Japan Kóreu og Ítalíu), en Kanadamenn hafa enn sem komið er staðið í vegi fyrir því. Framkvæmdastjórnin gaf út „norðurslóðayfirlýsingu“ í nóvember 2008, þar sem meginmarkmið ESB í málefnum norðurslóða koma fram. Þar er lögð áhersla á að vinna skuli að alþjóðlegri stjórnun norðurskautsins og að auðlindir þess verði nýttar á grundvelli sjálfbærni og jafnræðis. ESB telur að sambandið hafi „viðbótargildi“ (added value) sem áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu og virkur þátttakandi í störfum þess en Evrópusambandið hefur ekki beinan aðgang að norðurslóðum sem strandríki.“

Þarna kemur hreint fram sem hæstv. utanríkisráðherra virtist misskilja í dag, viljandi eða ekki viljandi, jafnvel vegna þekkingarskorts, að Ísland er strandríki en það eru önnur ríki Evrópusambandsins ekki. Svo ég vísi aftur til greinar Vals, með leyfi forseta:

„Aðeins þrjú ríki ESB teljast norðurslóðaríki, þ.e. Danmörk, Finnland og Svíþjóð, en á það ber þó að líta að Grænland telst ekki til ESB svo að hlutverk Danmerkur er verulega skilyrt.”

Það er því alveg ljóst eftir hverju er verið að slægjast, stöðu landsins.

Ég ætla að snúa mér að næsta kafla, um aðstoð ESB vegna aðildarumsóknar. Hæstv. utanríkisráðherra þráaðist mjög lengi við að svara þinginu um hana og lagði ég fyrir hann óteljandi fyrirspurnir um hvað styrkirnir væru háir, hvort þeir væru skilyrtir og hvort endurgreiðsluskylda væri á styrkjunum ef þjóðin mundi fella aðildarsamninginn. Nú er komið mjög skýrt svar frá hæstv. utanríkisráðherra til hv. þm. Birgis Ármannssonar og er mikill fróðleikur í því svari, eins og t.d. að í lok mars höfðu Evrópusambandinu verið sendar 37 umsóknir. Athygli vekur að hér sækja ráðuneytin sjálf um og svo sýnist mér á öllu og get nánast fullyrt að samningahóparnir um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál eru komnir yfir valdmörk sín því þeir fara fyrir styrkumsóknum er snúa að sjávarútvegi og landbúnaði. Það er mjög athyglisvert að hóparnir sjálfir skuli sækja um því ríkisstjórnin fer með framkvæmdarvaldið. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa þetta svar yfir.

Hæstv. utanríkisráðherra svaraði mér einu sinni í skriflegu svari við fyrirspurn að Lissabon-sáttmálinn ætti að vera þýddur á íslensku fyrir febrúarlok 2011. Frú forseti. Nú er sá tími liðinn og ekkert bólar á þýðingu Lissabon-sáttmálans. Bið ég hæstv. utanríkisráðherra að gá í ráðuneyti sínu hvort ekki sé hægt að finna þýðinguna og birta okkur þingmönnum.

Varðandi loftslagsmálin er sú einkennilega staða komin upp að Íslendingar, í gegnum ríkisstjórnina, hafa hafnað íslenska ákvæðinu varðandi loftslagsheimildir og ætla að ganga inn í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með loftslagsheimildir. Álverin og flugið verða sett undir þetta kerfi 2012 og 2013. Málið er í umhverfisnefnd og gerði ég harða hríð að embættismönnum í síðustu viku í umhverfisnefnd varðandi heimildirnar vegna þess að þarna henda Íslendingar út um gluggann sem nemur 15 milljörðum í losunarheimildum í stað þess að ganga þarna inn og fá úthlutað fyrir fram. Ekki vill betur til en svo að Evrópusambandið er að loka flugumferð til Evrópu því nú þurfa flugfélög sem hafa leyfi til flugrekstrar til sambandsins að fara að borga sem nemur 6–30 evrum á hvert flugsæti enda kom í ljós í lok fundar í umhverfisnefnd að bandarísk flugfélög hafa farið með þetta mál fyrir Evrópudómstólinn vegna þess að Chicago-samningurinn byggir að sjálfsögðu á frjálsri för í lofthelgi heimsins, svipað og hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna virkar á alþjóðavísu. Evrópusambandið eitt og sér getur því ekki lokað á þessa flugumferð með gjaldtöku því eins og við vitum eru hvorki Bandaríkin né stærri iðnríki heims eins og Kína og Indland, aðilar að Kyoto-samningnum. Svona eru þessi mál byggð á lofti og Evrópusambandið tekur sér raunverulega vald sem brýtur alþjóðasamninga. Það verður því mjög áhugavert að sjá hvernig þetta dómsmál fer en það breytir því ekki að íslenska ríkisstjórnin fer fram með málið þrátt fyrir að um það sé fullkomin réttarleg óvissa. Þetta er mjög athyglisvert.

Þróunarsjóður EFTA var mjög til umræðu fyrir jólin og þar gekk hæstv. utanríkisráðherra fram með að Íslendingar mundu lögtaka greiðslurnar til þróunarsjóðsins sem áður voru samningsbundnar, lögtaka í EES-samninginn að við sem þjóð reiðum af hendi á milli 5–6 milljarða næstu fimm ár. Það sorglega í málinu er að þessi þróunarstyrkur fer til ríkja sambandsins sem eru fjárhagslega illa stödd. Það er eins og hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki áttað sig á hvað gerðist á haustdögum 2008. Íslendingar hefðu átt að fá undanþágu frá greiðslunum í stað þess að lögfesta þær.

Tími minn er á þrotum, frú forseti. Ég ætla að koma aðeins inn á Schengen-landamærasamstarfið. Það er í fullkomnu uppnámi eins og þeir sem fylgjast með fréttum hafa orðið vitni að. Þjóðirnar eru að loka landamærum sínum vegna ágangs flóttafólks. Schengen-samstarfið virðist vera við það að springa í sundur og þá er fátt eftir af Evrópusambandinu, það riðar til falls, þvílík er hnignun þess.