139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurnina. Ég kom upp í andsvar við hv. þm. Bjarna Benediktsson í dag þar sem nú hafa verið sendir fram á völlinn þingmenn Samfylkingarinnar með þann boðskap að hér verði ekki kominn samningur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir 2013. Ég varpaði fram þeirri spurningu hvort það gæti verið samhengi í því að stjórnlagaráð er að störfum og að þar eru einstaklingar sem leggja mikið kapp á að fella út úr stjórnarskránni ákvæðið um fullveldisafsal, því að þá virðist sem svo að Samfylkingin ætli sér í þingkosningar, breyta stjórnarskránni og ganga svo til þessara samninga og vísa í að ekki sé lengur fullveldisafsal í stjórnarskránni og þá þurfi ekki að fara með samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá sagði hv. þm. Bjarni Benediktsson að sú ríkisstjórn sem ynni á þessum nótum, sem væri uppi með svo sviksamlegt athæfi, fengi ekki traust kjósenda sinna. Ég spyr þá á móti: Hvað hefur þessi ríkisstjórn ekki svikið? Ríkisstjórnin hefur nánast svikið allt, t.d. varðandi þetta mál, og nú hefur komið í ljós að það voru meira eða minna ósannindi sem borin voru á borð í Icesave-málinu. Þess vegna er staðan þessi, að Samfylkingin ætlar jafnvel að fara fram á það að það verði aldrei þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn. En þingmaðurinn spyr hvor hafi réttara fyrir sér eða hvor ráði meiru, hæstv. utanríkisráðherra eða stjórnarskráin. Það er auðvitað stjórnarskráin sem er megingrunnplagg okkar sem öllum ber að fara eftir. Hæstv. utanríkisráðherra ræður ekki neinu í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar upp verður staðið greiðir þjóðin atkvæði um þennan samning og svo er það þingið sem hefur lokaákvörðunarvaldið um málið. Eins og ég hef margoft bent á er þjóðaratkvæðagreiðslan um (Forseti hringir.) ESB einungis ráðgefandi en ekki bindandi og þess vegna koma þingmenn til með að ráða úrslitum málsins.