139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að mjög víða þarf að upplýsa um ályktun 1325 og það hef ég reynt að gera. Ég vildi að hv. þingmaður hefði verið mér við hlið þegar ég upplýsti t.d. utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins um innihald þeirrar ályktunar, og að ég teldi að það bandalag ætti að taka hana eins og utanríkisráðherra Íslands sér að hjarta.

Svo vil ég, af því að ég komst ekki í það í fyrra andsvari mínu, fullvissa hv. þingmann um að hún þurfi ekki að óttast um afdrif jafnréttisskólans á meðan ég er í utanríkisráðuneytinu. Ég lít svo á að þó að þetta sé lítill skóli enn þá sé mjór mikils vísir og líkt og hinir þrír skólarnir sem eru uppvaxandi í fóstri hjá íslenska ríkinu tel ég að hann geti vaxið í það að vera gildur meiður. Vonandi munum við sjá það á næstu árum að honum eflist þróttur. Í öllu falli er hann eitt af þeim forgangsverkefnum sem segja má að við höfum skilgreint. Það speglast t.d. í því að þrátt fyrir harðar niðurskurðarkröfur, meðal annars þingmanna, gagnvart utanríkisráðuneytinu var sá skóli í skjóli nú sem í fyrra.