139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að á þessum tveimur ákvörðunum er sannarlega eðlismunur. Í fyrra tilvikinu hafði Ísland ekki um það að velja að koma í veg fyrir innrás heldur ákváðum við og ríkisstjórn Íslands á þeim tíma að standa með bandalagsþjóðum okkar, nákvæmlega eins og ríkisstjórn Íslands ákvað að gera núna í tilfelli Líbíu. Munurinn er hins vegar sá að núna hafði ríkisstjórn Íslands og þar með talin Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem fordæmir árásir, sem fordæmir stríð, sem fordæmir veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, tækifæri á alþjóðavettvangi og innan bandalagsins, ekki bara til að láta þessa afstöðu í ljós heldur til koma í veg fyrir að bandalagið næði saman um þessa ákvörðun. Þegar ákvörðun um þetta var tekin í Norður-Atlantshafsráðinu var aðeins eitt atkvæði frá Íslandi, atkvæði ríkisstjórnarinnar, (Forseti hringir.) ekki bara Samfylkingarinnar heldur ríkisstjórnar Íslands. Þar með hefði Vinstri hreyfingin – grænt framboð getað beitt (Forseti hringir.) neitunarvaldi og komið í veg fyrir allt heila klabbið.