139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fylgst með umræðunni í dag og heyrði fyrri ræðu hv. þingmanns. Það er rétt, hann minntist á þetta, en mér fannst hann ekki vera nógu afgerandi og skýr og þess vegna spurði ég aftur vegna þess að mér finnst þetta skipta verulegu máli. Ég spyr hv. þingmann hvort hann fallist á það: Geta menn haft þá sannfæringu að fara að einhverjum reglum annars staðar frá? Get ég haft þá sannfæringu að fara eftir því sem hv. þingmaður greiðir atkvæði um? Til hvers eru menn að bjóða sig fram til þings ef þeir ætla ekki að axla þá ábyrgð sem felst í því að vera þingmenn og setja lög og ákveða ýmsa hluti, eins og t.d. það hvort Ísland ætli að afsala sér sjálfstæði sínu og ganga í Evrópusambandið? Það er heilmikil ákvörðun og menn geta ekki skorast undan henni með því að fara eftir einhverri þjóðaratkvæðagreiðslu sem samkvæmt stjórnarskrá hefur ekki lokasvarið. Það er eingöngu þegar forseti vísar lögum til þjóðarinnar og neitar að skrifa undir, þá hefur þjóðin afgerandi vald samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Við þyrftum fyrst að breyta stjórnarskránni og það er kannski í lagi að breyta stjórnarskránni í þá veru og vel má vera að það verði niðurstaðan hjá stjórnlagaráði.