139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú verða menn að gera skarpan greinarmun á ríki og þjóð. Ég vænti einskis stuðnings frá litlum ríkjum eins og Norðmönnum og Svíum sem segjast vera vinir okkar á góðum stundum en settu samt skilyrði um að við samþykktum Icesave ef við ættum að fá lán hjá þeim. Af hverju beittu þeir slíkri kúgun, frú forseti? Þeir mátu tengsl og velvild Breta miklu meira en velvild Íslendinga enda hafa Bretar miklu meira að segja í efnahagslegu tilliti fyrir ríki þeirra en Íslendingar. Þannig er það, það er hinn kaldi veruleiki.

Hins vegar hef ég verið að fylgjast með þýskum blöðum undanfarið og þar hefur orðið mjög mikil breyting á viðhorfi manna til Icesave 3 miðað við það sem var til Icesave 2. Um 70% af þeim kommentum sem ég las eða viðtölum eða áliti manna í fréttum þýskra blaða snerust um að Íslendingar hefðu sýnt það að skattgreiðendur ættu ekki að borga fall bankanna. Menn spurðu þar: „Af hverju ættum við Þjóðverjar að borga fyrir fall írskra og grískra banka?“ Af hverju ættum við sem skattgreiðendur að borga fyrir glannaskap þeirra í fjármálum? Þetta finnst mér vera mikil breyting. Ég held því að lítil þjóð geti treyst á velvild erlendra þjóða, líka stórra þjóða. En til þess þarf gífurlega upplýsingu og ég held að forseti Íslands hafi stundað bestu upplýsingagjöfina í þessu máli en því miður ekki utanríkisþjónustan. Hún brást að mínu mati. En forseti Íslands vann stórvirki í því að upplýsa erlendar þjóðir (Forseti hringir.) um stöðu Íslands.