139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:47]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það hefði verið gott að fá tækifæri til að segja nei. Þannig er pólitíkin einfaldlega ekki, eins og við hv. þingmaður báðar vitum. Það eru skiptar skoðanir um þetta mál. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er eini flokkurinn á Alþingi sem hefur það á stefnuskrá sinni að standa utan NATO, vera fyrir utan hernaðarbandalag og hernaðarbrölt, þannig að þarna komust sjónarmið okkar ekki að. Talað hefur verið um það í dag að fara ætti fram rannsókn á þessu máli. Fínt, hvern ætti að særa eða saka til að allt komi upp á borðið í þessu máli? Ég held að allir hljóti að fagna því mjög, rétt eins og allur þingheimur og þá ekki síst þingmenn Sjálfstæðisflokksins hljóta að fagna því að kannað sé til hlítar hvernig staðið var að þeirri ákvörðun að Ísland gerðist aðili að stríðinu í Írak.

Jú, ég endurtek, það er súrt. Ég hefði viljað standa þarna keik og segja: Nei, við fordæmum þessar loftárásir og ætlum ekki að standa að þeim. En enn og aftur, svona er pólitíkin. Ég vil bara hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að hugsa hlutina upp á nýtt með okkur Vinstri grænum og vita hvort hann sé ekki sammála þeim, æ fleirum, sem nú fordæma þessar loftárásir og hvetja til pólitískra lausna í þessari deilu.