139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér er um sjávarútvegskerfið kemur að sjálfsögðu beint inn á þá umræðu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi um samkeppnishæfi Íslands. Lök staða Íslands í þessum mælingum skýrist að miklu leyti af því að ríkisstjórnin hefur ekki sinnt því sem hún ætti að sinna, þ.e. að byggja upp öflugt atvinnulíf. Það skýrir meðal annars það að við erum á þessum slóðum.

Þá hefur líka komið fram, m.a. í þeirri athugun sem þarna er vísað í, að fjármálaleg stefna stjórnvalda og einnig sú er snertir atvinnumálin og atvinnulífið fær falleinkunn. Á þessu þarf að taka og þarna þarf að verða breyting á.

Sjávarútvegurinn er Íslendingum gríðarlega mikilvægur þegar kemur að mati og þegar við tölum um samkeppnishæfi landsins, ekki síst þessarar greinar. Við erum að tala um grein sem er ekki ríkisstyrkt. Við erum að tala um grein sem keppir við ríkisstyrktar greinar í Noregi og öðrum löndum. Því þarf sjávarútvegurinn að búa við skilyrði þar sem hann getur vaxið og skilað öflugum og góðum arði til samfélagsins. Það verður ekki gert með þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir, það er alveg ljóst. Þau kunna hins vegar að taka breytingum í þá veru að það sé hægt að styðja þau þannig að þessi skil verði áfram til staðar. Sjávarútvegurinn stendur í dag undir mörgum af stærri og smærri byggðarlögum í kringum landið, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Því er gjarnan sagt að sjávarútvegurinn sé orsök þess að fækkað hefur í byggðum landsins. Það kunna að vera einhver tengsl á milli en það er alveg klárt að hann er ekki höfuðástæðan fyrir því að þar hefur því miður orðið fólksfækkun og atvinnumissir. Þar inn í koma aðrar breytur.

Það sem við þurfum að gera núna er að efla samkeppnisstöðu Íslands og það gerum við ekki með því að halda áfram að gera helstu atvinnugreinum okkar erfitt fyrir að starfa og vaxa.