139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[16:48]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fór mjög vel yfir nefndarálit hv. félags- og tryggingamálanefndar hér áðan. Eins og fram kom í máli hennar eru allir hv. þingmenn nefndarinnar á álitinu. Ég er ánægð með að verið sé að bæta áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára en set spurningarmerki við ákveðna liði í áætluninni þrátt fyrir að ég sé sammála nefndarálitinu. Ég er algjörlega ósammála því að neyða stjórnendur og aðra til að ráða fólk eftir kyni. Ég er og hef alltaf verið á móti kynjakvóta. Ég er sammála því að maður ráði einstaklinga eftir hæfileikum og getu hvers einstaklings; kynferði eigi ekki að ráða. En þar sem ekki er verið að setja lög um 60:40 leiðina, heldur verið að fá fyrirtæki í einkageiranum til að undirbúa sig undir gildistöku laganna 2013 og ýta á ráðuneyti og aðra að fara eftir lögum, skrifa ég undir þetta. Ég ítreka það að ég er og hef alltaf verið á móti ákvæðum um að kyn eigi að ráða því hvort einstaklingur fær vinnu eða ekki.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ræddi aðeins um dagvistun og önnur almenn mál sem koma að jafnrétti. Ég er sammála þingmanninum um það að ég held að mesta jafnréttismál Íslandssögunnar væri bætt úrræði í dagvistunarmálum. Ég tel mjög mikilvægt að hv. þingmenn hafi í huga að koma ekki reglulega inn í umræðuna með eitthvað sem við höfum ekki upplýsingar í höndunum um og getum ekki notað, eins og til dæmis þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svarar öllum spurningum um gjaldmiðilsmál með evrunni. Hún er ekki til staðar, hún mun ekki bæta neitt í augnablikinu. Við erum ekki að fara að taka upp evru á morgun eða hinn, hún er ekki eitthvað sem við getum notað. Það er eins með áætlun í jafnréttismálum. Þetta á að vera áætlun með verkefnum sem eru áþreifanleg og mælanleg. Það eru ákveðin verkefni sem sett eru fram í áætluninni sem eru mælanleg. Það er mjög gott. Þegar verið er að setja peninga, skattfé borgaranna í ákveðin verkefni viljum við sjá mælanlegan árangur.

Mig langar sérstaklega að tæpa á 5. lið, það heitir „Kyngreining upplýsinga“. Mig langar að árétta það, ég held ég fari rétt með, að LÍN kyngreinir ekki upplýsingar sínar. Ég skil það ekki. Ég skil ekki hvernig LÍN, Lánasjóður íslenskra námsmanna, getur komist upp með það að vera ekki með kyngreiningu á upplýsingum sínum. Við tölum hér um að karlmenn, ungir drengir, detti út úr framhaldsskólum. Við erum síður að fá þá inn í háskóla. Konur eru orðnar í miklum meiri hluta í háskólanum, sem mér finnst frábært en mér finnst samt ekki frábært að karlmenn séu hættir að fara í skóla. Hefur það eitthvað að gera með það að karlmenn hafi tækifæri til að fá hærri tekjur án þess að fara í nám? Hefur það eitthvað með það að gera að tekjur þeirra eftir sumarvinnu eru hærri þannig að lægri námslán eru í boði og karlmenn sæki ekki í skólann? Er eitthvað í reglum LÍN, eða í sambandi við úthlutun hjá LÍN, sem gerir það að verkum að við fælum kannski karlmenn frá háskólanámi? Ég held að þetta séu upplýsingar sem menntamálaráðuneytið eigi að sækjast fast eftir að fá. Þetta er lögbundin skylda, að kyngreina upplýsingar.

Svo er annað atriði sem talsvert var rætt um í nefndinni, eftir að ég kem inn í þetta — ég tek það fram að ég var ekki í þeirri vinnu allan tímann, þessi þingsályktunartillaga hefur verið lengi til umfjöllunar í nefndinni — en það er í sambandi við kynbundið ofbeldi. Mig langar, með leyfi forseta, að fá að lesa smáklausu:

„Í bók Ingólfs V. Gíslasonar, Ofbeldi í nánum samböndum, orsakir, afleiðingar og úrræði, sem kom út á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins árið 2008, kemur fram að karlar verða fyrir því að konur beiti þá ofbeldi. Ofbeldi milli para getur verið gagnkvæmt. Börn verða fyrir ofbeldi foreldra, systkina og aldraðir verða fyrir ofbeldi ættingja sinna. Þá er ofbeldi einnig til staðar í samböndum samkynhneigðra.“

Ég held nefnilega að það sé mjög þarft að opna þá umræðu að ofbeldi á sér stað á mjög mörgum stöðum í samfélaginu. Ofbeldi, þar sem konur eru gerendur, er alveg gífurlega falið. Ég veit að samkvæmt rannsóknum eru karlmenn miklu oftar gerendur í ofbeldi gagnvart börnum og konum, kynferðisofbeldi og öðru, en konur eru líka gerendur. Við þurfum að opna þessa umræðu. Það er mjög erfitt, virðist vera, að vera karlmaður og verða fyrir ofbeldi af hendi konu og koma fram og segja frá því. Þetta er miklu erfiðara mál við að eiga, af því að það er mjög falið, en þó eru til rannsóknir. Ég er mjög ánægð með að nefndin tók þetta inn í nefndarálit sitt, þetta er eitthvað sem við þurfum að vekja athygli á, ofbeldið er alls staðar í samfélaginu og við þurfum að takast á við alla þætti þess. Þannig skapast jafnrétti. Jafnrétti er jafnrétti milli kynja — réttur til allra til að vera sá einstaklingur sem hann er; það tel ég vera jafnrétti.

Mig langar að nefna annað atriði til viðbótar, það er í athugasemdum Sambands sveitarfélaga. Þar kemur fram að þeir gera athugasemd við 30. gr., sem er um kennaramenntun. Þeir vilja vekja athygli hv. félags- og tryggingamálanefndar á því að Alþingi eða ráðuneytin eru ekki einráð um það hvernig námskrár eru settar upp og hvernig námsskipulag er sett upp, heldur á þetta að vera samvinnuverkefni og mikilvægt að allir hagsmunaaðilar komi að mótun námskrár fyrir kennaranám. Ég tek undir það. Það er aðeins tæpt á því í 30. lið, með leyfi forseta:

„Inntak kennaramenntunar verði endurskoðað og háskólar hvattir til að innleiða námskeið í kynjafræðum fyrir alla nemendur.“

Ég er sammála þessu, þetta þarf að bæta. Einnig þurfum við að vera í samráði við þá hagsmunaaðila sem koma þarna að. Sú umræða er alltaf í gangi að það vanti tilfinnanlega karla í stétt leikskólakennara og stétt grunnskólakennara og ætla ég, með leyfi forseta, að fá að vitna í tölur frá sambandinu:

„96% af starfsfólki við uppeldi og menntun í leikskólum eru konur og 79% af starfsfólki við kennslu í grunnskólum eru konur.“

Þarna þurfum við að taka okkur tak. Það hefur verið gagnrýnt að farið sé í það að lengja kennaranám — sem ég reyndar er hlynnt, ég tel að það sé gott að kennaranámið sé lengt — því að það verði til þess að við fáum ekki karla í þetta starfa. Ég veit ekki hvað liggur að baki þeim rökum, en mér finnst nauðsynlegt að opna þessa umræðu, þetta er átak sem við þurfum að leggjast í. Þær fyrirmyndir sem börnin hafa skipta líka máli í praxís, í daglegu umhverfi. Hvað hef ég fyrir framan mig? Ég hef pabbann sem er á sjó, ég hef mömmuna sem er kennari. Þetta er samfélagsmein sem við þurfum að breyta, þessar staðalímyndir.

Ég læt máli mínu lokið. Ég er sátt við mjög margt sem kemur fram, en set spurningarmerki við ákveðna þætti en styð samt nefndarálitið eins og fram hefur komið.