139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[11:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að ráðslaga að þetta mál verði að lögum þar sem það er, því miður, að mínu mati og margra annarra eingöngu til þess fallið að veikja þá stofnun sem hér um ræðir. Styrkur hennar hefur einmitt falist í því að hafa breiða yfirsýn. Það er algjörlega að mínu viti, nú tala ég frá eigin brjósti, fáránlegt að leggja Byggðastofnun að jöfnu við aðrar fjármálastofnanir þegar um hana gilda að hluta til önnur lög. Stofnunin hefur vissulega allt annað hlutverk en venjulegar fjármálastofnanir (Gripið fram í.) fyrir utan það að unnið er að endurskoðun á starfsemi stofnunarinnar þegar þetta frumvarp kemur fram. Það er mjög sérkennilegt að réttlæta það með 1–2 millj. kr. sparnaði á sama tíma og þessi breyting mun þýða að dregið verður úr möguleika stofnunarinnar, að mínu viti, til að sinna hlutverki sínu. Það sem skortir varðandi Byggðastofnun er skýr stefna stjórnvalda í byggðamálum.