139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði einmitt að spyrja hv. þingmann um þetta síðasta. Lífeyrissjóðirnir hafa verið skattfrjálsir á Íslandi alla tíð, sennilega er ekki til liður í bókhaldi hjá þeim sem heitir skattgreiðslur. Hér á að taka upp skattgreiðslur á lífeyrissjóðina en nú vill svo til að sumir lífeyrissjóðir eru með föst réttindi samkvæmt lögum, þ.e. lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna. Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins munar t.d. ekkert um þetta vegna þess að iðgjaldið verður bara hækkað hjá ríkinu. Það breytir engu fyrir sjóðinn hvort hann samþykki að borga einhvern skatt til ríkisins því að ríkið þarf þá bara að borga meira í iðgjald. Hinir launþegarnir sem ekki vinna hjá ríkinu þurfa því að borga meira svo að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins geti staðið undir þessu.

Á sama tíma horfa lífeyrissjóðirnir fram á að vextir eru sennilega að lækka og þeir þurfa að breyta vaxtaviðmiði sínu sem mun hafa gífurleg áhrif á starfsemi þeirra. Hálfs prósents lækkun á vaxtaviðmiði þýðir, að mér skilst, um 20% skerðingu á eignum sjóðanna. Þá þyrfti að skerða lífeyri sem því nemur eða hækka iðgjöld á atvinnulífið. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er formaður hv. efnahags- og skattanefndar, hvort þessi atriði komi til skoðunar hjá nefndinni, að skattleggja lífeyrissjóðina í svona stöðu þegar þeir horfa fram á þessi vandamál fyrr en seinna.

Svo er það persónuafslátturinn, ég er búinn að spyrja að því. Hv. þm. er náttúrlega verndari láglaunamannsins og menn hurfu frá verðtryggingu. Það er spurning hvort menn hafi efni á því að taka upp verðtryggingu frá þeim tíma þegar horfið var frá henni en það verður sennilega of dýrt.