139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann fór ansi vel yfir þetta svið enda vel inni í landbúnaði annars vegar þar sem hann er bóndi og Evrópusambandsmálum hins vegar og þeim kratisma sem Evrópusambandið stendur fyrir þar sem hann er formaður Heimssýnar.

Í frumvarpinu er verið að opna á frjálst flæði gæludýra milli landa. Það er alveg í anda fjórfrelsisins og hreint með ólíkindum að þetta skuli ekki vera inni í EES-samningnum eins og frjálst flæði fólks og vöru og þjónustu milli landa en því miður falla gæludýr víst enn undir landbúnaðardeild Evrópusambandsins, ekki er enn búið að gera gæludýrin að vöru eins og fólk og vinnuafl.

Þess er getið í greinargerð með frumvarpinu að viðkomandi gæludýri skuli fylgja upprunavottorð sem er heilbrigðisvottorð og er nefnt gæludýravegabréf í frumvarpinu. Hvaða tryggingu telur þingmaðurinn vera fyrir því að upprunavottorð Evrópusambandsins séu sönn og í gildi? Við vitum hvernig Evrópa liggur að Tyrklandi til dæmis og eins og allir vita er Tyrkland ekki í Evrópusambandinu. Við erum eitt af 10 löndum sem eru laus við hundaæði eins og þingmaðurinn fór yfir. Telur hann ekki að frumvarpið opni á mikla möguleika á að hingað streymi til landsins gæludýr á fölsuðum vegabréfum eins og t.d. flóttamennirnir sem koma á fölsuðum vegabréfum nú yfir alla Evrópu?