139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er ágætt að heyra lýsingar á skrifræði í Evrópusambandinu öðrum til viðvörunar og um þau vegabréf sem kúaeigendur þar eru skyldir til að taka upp. En það kemur nú lítið við þetta mál því þau vegabréf sem hér um ræðir fá bara þeir sem óska eftir því og vilja greiða fyrir. Það kemur í staðinn fyrir annað skrifræði sem tengist núna einangruninni.

Ég held að meginmisskilningurinn í áherslum hv. þingmanns og ýmissa annarra sem tjáð hafa sig um málið sé sá að hér er verið að blanda saman algjörlega óskyldum hlutum, annars vegar búpeningi og hins vegar gæludýrum. Það er einfaldlega svo að gæludýr eru nú þegar flutt til Íslands í miklum mæli frá þessum hættulegu útlöndum með alls kyns upprunavottorðum sem kunna að vera eða vera ekki fölsuð. Allar þær hættur sem þeim innflutningi fylgir eru þegar fyrir hendi. Það gildir allt annað um gæludýrin en til að mynda hestinn þar sem við höfum okkar séríslenska kyn og bönnum allan innflutning til landsins á slíkum dýrum. Við flytjum einfaldlega inn gæludýr, til að mynda páfagauka því þeir eru nú ekki upphaflega til orðnir á Íslandi. Þetta mál snýr einfaldlega að því hvort eftirlit dýralækna, bólusetningar og prófun við móteitri sé fullnægjandi ráðstöfun í staðinn fyrir nokkurra vikna einangrun og geri í raun sama gagn í þeim vörnum sem við viljum hafa hér.