139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[11:15]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Meginmarkmið þessa frumvarps er að gera barnaverndarstarf í landinu öllu skilvirkara og markvissara í bæði viðkvæmum og flóknum málaflokki. Frumvarpið skýrir og skerpir ákvæði gildandi laga og eyðir óvissu en jafnframt er í því að finna ýmis mikilvæg nýmæli, svo sem um tilkynningarskyldu, skyldu til að kveðja til sérfróða meðdómsmenn, kæranleika tiltekinnar ákvörðunar barnaverndarnefndar, lögsögu barnaverndarnefnda í málefnum barna sem ekki eiga lögheimili á Íslandi, breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og svo mætti áfram telja, allt afar mikilvægar breytingar sem félags- og tryggingamálanefnd stendur einhuga að. Hún er einhuga að baki nefndarálits og breytingartillagna hvað þetta frumvarp varðar. Þær eru ekki margar vegna þess að frumvarpið sjálft er afar vel og vandlega unnið og við (Forseti hringir.) vonumst til, öll nefndin, að frumvarpið fái öruggan framgang til loka.