139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

skuldaniðurfærsla hjá Landsbankanum og fleiri lánveitendum.

[13:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við fengum stórfrétt frá Landsbanka Íslands í gær þar sem þeir tilkynntu að þeir muni breyta útreikningum sínum á niðurfærslu húsnæðislána; af eignum undir 30 milljónum verði miðað við fasteignamat. Þeir ætla einnig að niðurfæra önnur lán og endurgreiða hluta af vöxtum í tæplega tvö og hálft ár.

Þetta kemur helst til góða þeim hópi sem hvað verst fór út úr efnahagshruninu, því unga fólki sem var að kaupa sína fyrstu íbúð á árunum fyrir efnahagshrun og tók lán með tiltölulega háu lánshlutfalli og ber að fagna því. Þessi yfirlýsing frá Landsbankanum og þetta tilboð kemur í kjölfar þess að ríkisstjórnin hefur ítrekað borið það á borð við okkur að lengra verði ekki gengið í því að leiðrétta skuldamál heimilanna, ekki verði hægt að gera meira. Var engin innstæða fyrir þessu hjá hæstv. ríkisstjórn eða þekkti hún málið ekki betur en raun ber vitni? Svigrúmið er greinilega enn meira en gefið var í skyn.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún muni í framhaldi af þessu beita sér fyrir því að aðrir viðskiptabankar, sem nú eru í eigu erlendra kröfuhafa, feti sömu leið og Landsbankinn. Ég vil einnig spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að Bankasýslan fari sömu leið með sparisjóðina — og það sem skiptir ekki minnstu máli í þessu er að stærsti hópurinn sem hér um ræðir gagnvart húsnæðislánunum, stærsti hópurinn af því unga fólki sem þetta næði til, er með lán sín hjá Íbúðalánasjóði. Ætlar forsætisráðherra að beita sér fyrir því að aðrir í samfélaginu, annað ungt fólk og aðrir þeir hópar sem njóta góðs af þessu, njóti sömu kjara hjá Íbúðalánasjóði, sparisjóðunum og öðrum viðskiptabönkum?