139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[14:56]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er stór dagur og gleðilegur fyrir íslenska menningu en einnig fyrir mannréttindabaráttu í hinu góða landi okkar. Í fyrsta sinn festum við í lög að íslenskan er þjóðtunga Íslendinga, sameiginlegt mál allra þeirra sem búa hér í landinu, hvort sem þeir eru fæddir hér á landi eða aðfluttir. En einnig í fyrsta sinn og eftir áratugalanga baráttu frjálsra félagasamtaka í landinu, félagasamtaka heyrnarlausra, heyrnarskertra, daufblindra og aðstandenda þeirra, hefur tekist að tryggja með lögum stöðu íslenska táknmálsins sem fyrsta máls þeirra sem þurfa á því að halda til tjáningar og samskipta. Við að lögfesta þetta frumvarp stígum við mikilvægt skref í að jafna tækifæri landsmanna til mannsæmandi lífs, hvort sem þeir eru svo heppnir að vera fæddir með fulla heyrn eða sjón eða ekki. Með þessu frumvarpi stöndum við saman hér í þinginu þvert á alla flokka um að koma mikilvægu framfaramáli á leiðarenda og ég vil óska þeim sem hafa barist fyrir þessum áfanga um langa hríð til hamingju með sigurinn.