139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki úr vegi að hefja umræðuna á svipuðum nótum og síðasti ræðumaður, hv. þm. Ólöf Nordal, gerði og gerði vel og ræða málið út frá heildarhagkvæmni fyrir þjóðarbúið. Við vitum sem hér erum inni að sjávarútvegurinn skiptir verulegu máli fyrir afkomu íslensks þjóðarbús. Sjávarútvegurinn er að sönnu ekki eins mikilvægur í þjóðhagslegu samhengi og hann var fyrir einhverjum áratugum en eins og bent hefur verið á hér í umræðunni skapar hann þó enn þúsundir starfa, bæði í veiðum og vinnslu, fyrir utan sennilega tugi þúsunda starfa í greinum sem veita sjávarútveginum þjónustu með ýmsum hætti. Sjávarútvegurinn skapar 40% af tekjum okkar af vöruútflutningi. Fyrir sennilega 20 árum var þetta hlutfall reyndar 90% en breytingar sem hafa orðið í hagkerfinu, ekki síst með tilkomu nýrra og öflugra fyrirtækja í stóriðju, hafa auðvitað breytt þessum hlutföllum, auk þess sem iðnaður almennt skilar meiru. En 40% undirstrika auðvitað hversu gríðarlega mikilvæg greinin er á þann mælikvarða. Ég held að óhætt sé að segja að fyrir íslenskt þjóðarbú skiptir það gríðarlega miklu máli að sjávarútvegurinn sé hagkvæmur, vel rekinn og skili góðum arði og að sem mest hagkvæmni ríki í rekstrarfyrirkomulagi þeirra fyrirtækja sem þar starfa.

Þetta er auðvitað lykilatriði þegar við horfum á fiskveiðistjórnarkerfið vegna þess að fiskveiðistjórnarkerfið getur haft gríðarlega mikil áhrif á það hvort fyrirtækin í greininni skila meiri eða minni arði. Það er hægt að hafa fiskveiðistjórnarkerfi sem leiðir til hagkvæmni og aukinnar arðsemi og það er hægt að hafa fiskveiðistjórnarkerfi sem dregur úr hagkvæmni og dregur úr arðsemi. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur gerbreytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu eins og við erum að gera í tengslum við það frumvarp sem hér liggur fyrir og það sem bíður umræðu.

Ávinningurinn sem þjóðin hefur af hagkvæmum sjávarútvegi er margvíslegur. Ljóst er að hagkvæm fyrirtæki sem skila hagnaði borga meira í skatta en fyrirtæki sem eru á núllinu eða eru rekin með tapi. Þetta er augljóst. Fyrirtæki sem rekin eru með hagnaði hafa miklu meiri möguleika á að greiða starfsfólki góð laun. Af góðum launum skila sér svo skatttekjur með beinum og óbeinum hætti og velta út í samfélagið. Fyrirtæki sem rekin eru með hagnaði og skila mikilli arðsemi hafa meiri möguleika á því að fjárfesta, kaupa þjónustu, endurnýja tækjabúnað o.s.frv. og skapa þannig áhrif, jákvæð áhrif á atvinnulífið og samfélagið í kringum sig. Þetta er augljóst. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt þegar við ræðum þessi mál að hafa í huga það markmið að fiskveiðistjórnarkerfið sem við byggjum hér upp sé til þess fallið að skapa meiri hagkvæmni, ekki minni hagkvæmni, að kerfið stuðli að þjóðhagslega hagkvæmum rekstri en dragi ekki úr möguleikum til hagkvæms reksturs. Þetta ætti að vera ljóst en þegar maður les frumvörpin er þetta greinilega ekki eins ljóst og maður kynni að halda, því að fátt í þessum frumvörpum virðist vera til þess fallið að auka möguleikann á því að sjávarútvegur á Íslandi sé rekinn með hagkvæmum hætti. Því miður er ástæða til að ætla að áhrif frumvarpanna, verði þau að lögum, verði einmitt þveröfug.

Við fáum á næstu dögum eða vikum mat óháðra aðila á þessum þáttum, þ.e. kallað hefur verið eftir hagfræðilegri úttekt. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur fengið starfshóp sem einkum er skipaður fræðimönnum við háskólana til að leggja mat á hagræn áhrif af frumvörpunum, af þeim breytingum sem þarna eru. Raunar hefðu það verið miklu betri vinnubrögð ef slík úttekt hefði legið fyrir áður en málið kom inn í þingið og áður en það var tekið til umræðu. Það hefðu verið miklu venjulegri vinnubrögð að láta slíka greiningu fara fram áður en gengið var frá frumvörpunum og þau borin inn í þingið frekar en eftir á. Engu að síður er það þó skárra að hæstv. ráðherra hefur kallað eftir þessu mati. Auðvitað verða þessi mál, hvorki þetta frumvarp né hið síðara, ekki til lykta leidd öðruvísi en að slíkt mat liggi fyrir.

Auðvitað vekur það athygli, fyrst við erum að ræða hin hagrænu áhrif, að þeir hagfræðingar sem hafa fjallað um þessi frumvörp hafa allir er mér óhætt að segja gagnrýnt þau, gagnrýnt þau á hagfræðilegum forsendum. Það er nauðsynlegt að taka fram að slík gagnrýni hefur komið fram, bæði frá hagfræðingum sem styðja núverandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnar við landið og hagfræðingum sem hafa gagnrýnt núverandi kerfi. Þeir hafa gagnrýnt það harðlega sumir. Ég nefni hagfræðingana Jón Steinsson og Þórólf Matthíasson, sem hafa verið meðal hörðustu gagnrýnenda núverandi kvótakerfis, en báðir hafa fundið marga annmarka á þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir og verður ekki annað skilið á máli þeirra en að þeir telji einmitt að þessi frumvörp standist ekki kröfuna um að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmum sjávarútvegi.

Óþarfi er að taka fram að fjöldamargir hagfræðingar sem styðja núverandi kvótakerfi hafa líka gagnrýnt þessi frumvörp harðlega. Það eru minni fréttir í því. Fjöldamargir hagfræðingar eru þeirrar skoðunar að núverandi kvótakerfi sé afar skynsamlegt og hagkvæmt og hafa fært fyrir því mörg rök og eðlilega eru þeir ekki sáttir við frumvörp sem fela í sér grundvallarbreytingar á kerfinu. En nóg um það.

Varðandi hagfræðilegu úttektina sem ráðherra kallar eftir, eftir að hann leggur fram frumvörp en ekki áður, þá er það auðvitað eitt af þessum einkennilegu atriðum í sambandi við það hvernig þessi mál ber að í þinginu. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það, það hafa aðrir hv. þingmenn gert í þessum umræðum, en það er þó aldrei of oft minnst á það að svo virðist sem ríkisstjórnin hafi klúðrað mjög miklu tækifæri til að ná sátt um framtíðarfyrirkomulag fiskveiða við landið. Í september á síðasta ári var komin ákveðin leiðsögn, ákveðnar útlínur eða ákveðnar viðmiðanir sem fulltrúar hagsmunahópa, vinnuveitenda, launþega, útgerðarmanna, sjómanna og stjórnmálaflokka hér á þingi höfðu fallist á en þegar þessi frumvörp komu svo fram níu mánuðum seinna, eftir einhvers konar samráðsferli milli stjórnarflokkanna, ber svo við að það er eiginlega enginn sáttur við þau. Þeir sem áttu aðild að sáttanefndinni á sínum tíma kannast ekkert við það að frumvörpin séu í þeim anda sem þar var lagt upp með. Meira að segja innan stjórnarflokkanna, sem þó hafa haft átta eða níu mánuði til að fjalla um þetta mál sín á milli, er ágreiningurinn slíkur að þeir hv. þingmenn stjórnarflokkanna sem komu í ræðustól á þinginu í gær og í dag keppast við að telja upp atriði í frumvörpunum, ekki síst því frumvarpi sem við ræðum hérna, sem þeir vilja breyta. Og það eru engin smáatriði. Nei, það eru grundvallaratriði í þessum frumvörpum, grundvallaratriði sem stjórnarþingmennirnir gera athugasemdir við. Það má því segja að það sé á vissan hátt ákveðið afrek hjá hæstv. ríkisstjórn að ná að snúa málinu úr sáttafarvegi í ófriðarfarveg með jafnafgerandi hætti og hér liggur fyrir.

Hæstv. forseti. Ég ætla að nefna örfá atriði í viðbót. Hér hefur auðvitað farið fram umræða um einstök atriði í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, það sem lýtur að stærra frumvarpinu svokölluðu verður auðvitað að bíða. En það eru mjög alvarlegar athugasemdir, svo dæmi sé tekið, sem koma fram af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins við þetta frumvarp. Ég nefndi það í þinginu í gær að það er ábyggilega einsdæmi að lagt sé fram á Alþingi stjórnarfrumvarp með samþykki ríkisstjórnar og þingflokka stjórnarflokkanna sem fylgir athugasemd frá fjármálaráðuneytinu þar sem með vel rökstuddum hætti er ýjað að því og nánast sagt berum orðum að ákvæði frumvarpsins stangist á við stjórnarskrá. Undir eðlilegum kringumstæðum hefðu svoleiðis athugasemdir frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kallað á það að beðið væri með málið, að menn settust niður og segðu: Hér eru alvarlegar athugasemdir, hvernig ætlum við að svara þeim? Hvernig ætlum við að bregðast við þeim? Er eitthvað til í þessu? Nei, það er ekki gert. Þeir sem taka ákvörðun um að leggja þetta frumvarp fram, ríkisstjórn og þingflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna, láta sér það í léttu rúmi liggja þó að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins komi með þetta mat. Það er ekki einu sinni að finna í greinargerð hæstv. ráðherra neinar ráðagerðir um að þetta mat sé ekki rétt. Ekki er reynt að halda því fram þrátt fyrir að þessar athugasemdir hafi komið fram á vinnslustigi málsins. Ekki er gerð tilraun til þess í greinargerð með frumvarpinu að svara því eða sýna fram á að þetta standist gagnvart stjórnarskrá. Þessar athugasemdir fjárlagaskrifstofunnar lúta fyrst og fremst að 6. gr.

Ég ætla að leyfa mér að bæta því við að það er fleira í þessu frumvarpi sem er hæpið gagnvart stjórnarskrá. Þar blasir t.d. við að 5. gr., sérstaklega 2. mgr. 5. gr., er auðvitað alveg fráleit þegar hugað er að því hvaða kröfur á að gera til lagasetningar út frá stjórnarskrá. Þar er ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að taka tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka, samanber rekstraryfirlit fiskveiða sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir.“

Vísað er til ákvörðunar um veiðigjald, þ.e. veiðigjaldið er ákveðin hlutfallstala sem er greind í 1. mgr., en í 2. mgr. er sagt að ráðherra geti tekið tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka. Þetta er reyndar mjög einkennilega orðað ákvæði, eiginlega eins og drög frekar en fullmótað lagaákvæði. Af athugasemdum við þessa grein í frumvarpinu má ráða að ráðherra eigi að geta lækkað, væntanlega, frekar en hækkað gjaldið með tilliti til mismunandi útgerðarflokka. Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt í ljósi þess að ekki verður litið á veiðigjaldið sem annað en skatt, ákveðna, sérstaka tegund af skatti, og skattamál eru þess eðlis að þau ber að ákveða á Alþingi með lögum. Það er óheimilt samkvæmt öllum hefðbundnum túlkunum í íslenskum og alþjóðlegum rétti að þing geti framselt skattlagningarvald til ráðherra. Það er alveg ljóst að þessi grein mun aldrei fá staðist og mun aldrei standast neina skoðun og er rétt að vekja athygli á því, hæstv. forseti.

Síðan er margt annað hæpið í þessu eins og aðrir hv. ræðumenn hafa getið um, m.a. síðasti hv. ræðumaður, Ólöf Nordal. Það er alveg með ólíkindum hve mikið vald ætlast er til að þingið framselji til hæstv. sjávarútvegsráðherra ef þetta nær fram að ganga. Það er auðvitað með ólíkindum eins rakið hefur verið og hefur verið gagnrýnt að slíkt valdaframsal væri fyrir hendi í dag. En er þá svarið að margfalda það? Ef mönnum finnst umhugsunarefni hvernig valdaframsalið er í dag, á þá að margfalda það, margfalda (Forseti hringir.) geðþóttaákvarðanir ráðherra? Það er stórhættulegt, hæstv. forseti, og ég mun koma nánar inn á það í síðari ræðu minni.