139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er hins vegar mikilvægt að grundvallarforsendan fyrir niðurstöðum endurskoðunarnefndarinnar liggi nokkuð ljós fyrir og meginreglan verði að byggja á því aflamarkskerfi sem er við lýði í dag. Það er mikilvægt að fá þetta upp á borðið því að ég held að við getum ekki rætt mikið um þessi mál ef við höfum ekki þá sýn á hreinu. Vitanlega munu þeir sem starfa í greininni vilja sjá hvers konar kerfi verður til framtíðar, þ.e. hver grundvallarhugsjónin verður. Það gengur ekki að hafa það galopið að ráðherra geti t.d. eftir þrjú, fjögur, fimm ár eða hvað þau verða mörg tekið upp á því samkvæmt lögum (Forseti hringir.) eða þessari heimild hér að ákveða eitthvert annað kerfi.