139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sú umræða sem hv. þm. Þór Saari hefur opnað á er ekki ný af nálinni í þessum sal. Hún hefur átt sér stað margoft við margvísleg tilefni og það er alveg skýrt hvaða reglur gilda um þessi efni. Í síðari tíð höfum við á þinginu verið að auka gagnsæi um hagsmuni einstakra þingmanna og ljóst er — og ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hafa tekið af skarið um það, það var nú tilefni þess sem ég óskaði eftir því að fá að taka til máls — að það eru engir slíkir hagsmunir hér undir að einstakir þingmenn séu óhæfir, enda eru þingmenn aldrei óhæfir, aldrei, til þess að taka þátt í umræðu um þau mál sem hér eru. Ég vil vekja athygli á því að í dag ræðum við almenna löggjöf um stjórn fiskveiða.