139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:58]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn nefndi sex atriði sem standa upp úr í því sem hún er ekki alveg fullkomlega sátt við. Mér sýnist sem fjögur af þessum atriðum snúi að því að frumvarpið gangi ekki nægilega langt.

Fyrsta atriðið sem hv. þingmaður nefndi er að henni finnst kerfið fulllokað, hún vill opna kerfið meira fyrir nýju fólki inn í greinina. En stangast það ekki á við annan hlut sem hún nefndi, að gjaldið væri of lágt? Það er algjörlega ljóst að með því að auka sóknargetu, fjárfestingu og mannafla í greininni er gengið á auðlindaarðinn þannig að þá er ekki hægt að hækka gjaldið sem hún vill hækka.