139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með fullri virðingu fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer Alþingi alls ekki með löggjafarvaldið í þessu frumvarpi. Lagt er til að ráðherravæða fiskveiðistjórnarkerfi Íslands. Ég minni á að það er enginn ódauðlegur og þótt það sé heillandi fyrir ráðherra hvers tíma að fara með slíkt vald að geta vílað og dílað um allt land og afhent nýtingarleyfi í samvinnu við Fiskistofu þá koma brátt nýir flokkar í ríkisstjórn.

Hvað finnst ráðherranum um að ráðherravæða þetta? Er hann sammála því að það sé gert? Alþingi má ekki framselja löggjafarvaldið til ráðuneyta og embættismanna eins og lagt er til í þessu frumvarpi. Við verðum að hverfa frá slíku en þessu hefur ríkisstjórnin komið á í frumvarpi eftir frumvarpi.