139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hljómar mjög undarlega þegar fyrir liggur að útgerðarfyrirtæki, eins og eitt af þeim sem ég nefndi áðan, þurfa jafnvel að leggja skipum og þar með missir fólk atvinnu. Ég held að hv. þingmaður sé, alveg, svo ég orði það bara þannig, frú forseti, úti á túni þegar kemur að því að ræða þessi mál. Ég vil þá segja eitt og spyrja hv. þingmann að því: Nú hafa samtök sjómanna, öll, eða þrenn stærstu samtökin, mótmælt þessu frumvarpi og í ályktun stjórnar VM, sem eru vélstjórar og málmtæknimenn, segir:

„Stjórn VM mótmælir því harðlega fyrir hönd vélstjóra á fiskiskipaflotanum, sem hafa lífsviðurværi sitt af sjómennsku, að verið sé að taka af þeim störfin og færa öðrum.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé mat hennar að þetta ágæta félag og stjórn þess fari rangt með og misskilji frumvarpið með einhverjum hætti. Hafnar hún ályktun þessa verkalýðsfélags?