139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

skuldaniðurfelling Landsbankans.

[10:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. alþingismönnum á nú að vera kunnugt það fyrirkomulag sem er á eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum og öðrum fjármálastofnunum því að það byggist á lögum frá Alþingi. Það er Alþingi sem hefur sett þau mál í farveg með löggjöf. Þau lög voru alveg skýr hvað það varðar að fjármálaráðuneytið eða fjármálaráðherra kemur ekki nálægt og má ekki skipta sér af daglegum rekstri þessara stofnana. Eignarhaldið fer í gegnum Bankasýsluna og beinlínis er kveðið á um það í lögum að bankinn og fjármálaráðuneytið mega ekki eiga samskipti um slíka hluti. Enda voru þau engin og ég frétti af þessum ráðstöfunum Landsbankans í gegnum fjölmiðla eins og aðrir.

Varðandi það hvort þetta kunni að þýða afturvirkni í þeim skilningi að raunverulegur vaxtakostnaður, sem hefur verið andlag vaxtabóta á þeim árum sem við eiga, þarf að sjálfsögðu að skoða það. Enda höfum við ákveðið að óska eftir gögnum frá Landsbankanum um þessa aðgerð til að geta áttað okkur á því hvort bæði þessi þáttur þurfi að koma til skoðunar og jafnvel skuldaniðurfellingin sjálf, hvort hún fer út fyrir þann ramma sem settur hefur verið með lögum um að almennt sé skuldaendurskipulagning ekki skattskyld. Hv. þingmenn eiga að þekkja þær sértæku ráðstafanir sem settar voru inn í skattalög í því skyni að greiða götu skuldaúrvinnsluaðgerðanna.

Ég held að menn eigi síðan að varast, sérstaklega þangað til menn hafa þá kynnt sér út í hörgul þessar áformuðu aðgerðir Landsbankans, að draga einhlítan samjöfnuð á milli þeirra og aðgerða í Íbúðalánasjóði eða hjá öðrum aðilum sem eru eingöngu með húsnæðislán. Hér er að sjálfsögðu um að ræða banka sem er með viðskiptavini sína í öllum viðskiptum og skuldir af allt öðrum toga en íbúðalán eru ekki síður undir í þessum aðgerðum að því er virðist, þ.e. yfirdráttarlán og aðrar skuldir viðskiptavina bankanna. Það er því fljótfærnislegt að jafna því sem banki af því tagi gerir, (Forseti hringir.) sem augljóslega er með markaðsþætti inni sér, við það sem er í gangi hjá Íbúðalánasjóði. Enda fer það samkvæmt lögum sem um það voru sett.