139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má segja að í því geti falist ósanngirni enda erum við að tala um að í slíkan nýliðunarpott væri eingöngu verið að setja lítinn eða tiltekinn hluta af aukningu hvers árs en ekki verið að taka af þeim heimildum sem menn hafa núna — heldur einfaldlega hluta af aukningu hvers árs sem menn væru þá bærilega sáttir um að gæti gengið í slíkan nýliðunarpott, hvort sem það væri 10 eða 15% af aukningu hvers árs, minna eða meira, það er útfærsluatriði. En ég vildi árétta það að við erum langflest nokkuð sammála um þá nálgun að gera tímabundna nýtingarsamninga, freista þess að setja niður þær harðvítugu deilur sem hafa verið um greinina, sem er að mörgu leyti byggð á gömlum staðreyndum um sölu á aflaheimildum og fleira slíkt. Þessar endalausu deilur grafa undan greininni og eru óþolandi fyrir tilvist hennar og framtíð og við þurfum því að freista þess að ná sátt um þetta.

Ég held að þessi frumvörp geti orðið til þess ef þau taka mið af breytingum í meðförum nefndanna á næstu mánuðum.