139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt hárrétt þarna er ákveðin togstreita eins og hv. þingmaður bendir á. Oft eru réttindin nátengd þjónustunni og þannig tengd velferðarsviðinu. En áherslur nefndarinnar, sem ég tel vera mjög réttar, og eigi að halda áfram að vinna með, eru þær að þetta séu mannréttindi, þetta séu réttindi fólks.

Varðandi eftirlitið held ég að langbest væri ef okkur auðnaðist — og vonandi verður ekki langt þangað til, það verður ekki á morgun, ekki í næsta mánuði og líklega ekki fyrir áramót o.s.frv. — að setja á stofn óháða eftirlitsstofnun, mannréttindastofnun, sem tæki þessi mál að sér. Auðvitað þurfa margir að koma að því hvernig þetta sé best gert. Þar þurfum við líka að horfa til reynslunnar eins og hún gerist best annars staðar. Margt af því sem hefur verið gert á ýmsum stöðum er til fyrirmyndar. Svíþjóð hefur oft verið nefnd en það eru ýmsir aðrir staðir. Okkur hefur verið bent á Kanada og fleiri lönd sem hafa gert þetta vel og við eigum að horfa þangað til að gera þetta sem best.

Það flækir þetta mál að hópur fatlaðra er mjög fjölbreyttur hópur. Við höfum talað um aðstæður geðfatlaðra og það sem að þeim snýr. Það þarf alveg sérstaka meðhöndlun líka þannig að þetta þarf allt að taka inn í. Fólk segir: Já, þetta kostar allt svo mikið o.s.frv. En ég held að á endanum kosti það samfélagið miklu meira að standa ekki vel að þessum málum. Þegar fram í sækir er hagkvæmara, ef fólk er að horfa á peningana, og betra fyrir alla að standa vel að þessum málum í grunninn, þá sparast til framtíðar fyrir samfélagið allt.