139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í þeirri vinnu sem fram hefur farið á Alþingi við að meta áhrifin af EES-samningnum og mögulegt frekara samstarf við Evrópusambandið hefur niðurstaðan verið mjög ákveðið sú að við á Alþingi séum ekki að nýta þau tækifæri sem okkur gefast í EES-samstarfinu til að hafa þau áhrif sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, þ.e. við á Alþingi höfum ekki nýtt okkur þau tækifæri sem gefast í EES-samstarfinu til að taka þátt í nefndastarfi á því stigi mála þegar engar ákvarðanir hafa enn verið teknar, áður en mál eru tekin upp í EES-samninginn.

Mig langar hins vegar að taka upp þau orð hv. þingmanns að við séum án allra áhrifa við innleiðingu löggjafar og velta því upp hvort hv. þingmaður trúi því í raun og veru að með því að undirgangast fleiri svið Evrópusamstarfsins, t.d. á sviði utanríkismála og fiskveiðistjórnar, öðluðumst við einhver völd. Við ættum kannski 4–6 þingmenn af hátt í 800 og því verður auðvitað ekki haldið fram með nokkrum rökum að þeir örfáu þingmenn í þessu mikla hafi þingmanna í Evrópusambandinu gætu haft einhver áhrif sem máli skiptu.

Þess utan líta menn í Evrópusambandslöndunum á það fyrirkomulag sem Evrópusambandsríkin hafa komið sér upp sem gríðarlegt vandamál og mikinn lýðræðishalla. Það birtist til dæmis í því að kosningaþátttaka til Evrópuþingsins er víðast hvar einungis um 25%. Hér á Íslandi er þróunin öll í átt til meira beins lýðræðis, til íbúakosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna, og Íslendingar eru þess vegna (Forseti hringir.) mjög fráhverfir því, eins og kannanir sýna, að ganga í Evrópusambandið þar sem valdið færist á fleiri sviðum til Brussel, lengra frá fólkinu í landinu.