139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[11:40]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Öflug og framsækin réttindagæsla fyrir fatlað fólk er gríðarlega mikilvægt mannréttindamál. Í þessum efnum hefur því miður verið mikil brotalöm hér á landi og mörgu ábótavant en með þessu frumvarpi er stigið mikilvægt skref í rétta átt. Þetta er skref á langri vegferð sem er fram undan og áframhaldandi vinna er nauðsynleg í málaflokknum. Með það að leiðarljósi að það séu sjálfsögð mannréttindi fyrir fatlað fólk að tryggja öfluga og framsækna réttindagæslu hefur félags- og tryggingamálanefnd lagt sig fram um að skýra og betrumbæta tiltekna þætti þessa frumvarps en leggja önnur og stærri mál í ákveðinn úrlausnarfarveg til lengri tíma.

Félags- og tryggingamálanefnd stendur einhuga að baki þessum mikilvæga áfanga og ég þakka aftur það góða samstarf sem við höfum átt.