139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[12:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að byrja á styttra svarinu, og síðara atriðinu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir spyr um, er ljóst að um ákveðið vandamál verður að ræða. Eðli málsins samkvæmt verður ekki alltaf fyrirséð við fjárlagagerð í hvaða rannsóknir verður ákveðið að ráðast á hverju ári. Ég hygg að hin raunverulega lending verði sú, eins og verið hefur, að ef til rannsókna kemur og ef til þeirra er stofnað á miðju ári verði málið leyst með fjáraukalögum og síðan verði reynt að áætla eftir bestu getu við fjárlög næsta árs hvað afgangurinn af rannsókninni á að kosta o.s.frv. Reynslan er sú að þessar áætlanir geta verið talsvert ónákvæmar þannig að ég held að við verðum að vera þess meðvitandi að sennilega er ekki hægt að negla þetta fastar niður en þetta.

Það er ljóst að rannsóknarnefnd Alþingis kostaði mörghundruð milljónir, allt hennar starf. Jafnvel þó að ekki yrði um að ræða jafnviðamiklar rannsóknir er ljóst að kostnaðurinn getur orðið verulegur, og það er auðvitað sjónarmið sem menn þurfa þá að taka tillit til þegar afstaða til hverrar tillögu fyrir sig er tekin hér í þinginu.

Varðandi hæfisskilyrðin var ég eindregið fylgjandi því að gerðar væru auknar kröfur til þeirra sem gegna eiga formennsku í þessum nefndum og ágætt að miða við starfsgengisskilyrði héraðsdómara í því sambandi. Það er ljóst að það er mikið vald sem nefndum af þessu tagi er falið. Það er líka ljóst að það er mikilvægt að þeir sem stýra því starfi hafi grundvallarþekkingu og reynslu á sviði réttarfars og réttarfarsreglna, mannréttinda og þess háttar, þeir eiga að stýra þeim þáttum. Síðan getur rannsóknarnefnd fengið sérfræðinga á öðrum sviðum til að fjalla um sérhæfða þætti, verkfræðinga, endurskoðendur, lækna (Forseti hringir.) eða hvaða sérsvið sem gæti reynt á í hverju tilviki.