139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[12:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst örstutt um aldursskilyrðið sem er afnumið þannig að unnt verði að leita til þeirra sem orðnir eru sjötugir til að hafa þetta starf með höndum samkvæmt frumvarpinu. Ég held að það sé mjög jákvætt. Ég held að almennt sé staðan sú að fólk heldur sem betur fer starfsorku sinni lengur og ég held að það geti einmitt verið fengur að því að fá til verkefna af þessu tagi menn sem lokið hafa störfum, hafa því meira svigrúm og tækifæri til að sinna svona verkefnum en um leið fulla starfsorku. Ég held að það sé mjög gott að við getum leitað til reynsluríkra einstaklinga í þessu sambandi.

Varðandi rannsóknarheimildirnar játa ég að á meðan á málsmeðferðinni í nefndinni stóð hafði ég ákveðnar áhyggjur af nákvæmlega þessum þætti. Þetta er vandmeðfarið. Á annan kantinn þurfa heimildirnar að vera með þeim hætti að þær virki, að þær leiði til þess að rannsóknarnefnd sé kleift að draga saman þær upplýsingar og afla sér þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að komast að sem réttastri niðurstöðu. Ég held að það sé mikilvægt. En á sama hátt er gríðarlega mikilvægt að um sé að ræða ákveðna réttarvörn eða réttindagæslu fyrir þá sem rannsókn beinist að. Ég get fallist á þessa niðurstöðu og sætti mig alveg við hana. Varðandi það að slíkar nefndir geti vakið athygli annarra yfirvalda á brotum þá held ég að það sé bara nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að hafa slíkt ákvæði inni til þess að mál fari þá í réttan farveg, hvort sem er hjá ákæruvaldinu eða (Forseti hringir.) yfirmönnum í skilningi starfsmanna- og stjórnsýslulaga.