139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hafði nokkra ögrandi spretti í sinni góðu ræðu sem vel mætti dvelja lengi dags við að ræða í þaula. Ég er alveg sammála honum um að samgöngubætur skipta mjög miklu máli til þess að efla og dreifa straumi ferðamanna. Enginn hefur nú gert það eins og hv. þm. Kristján L. Möller og af því að hv. þingmaður talaði um nauðsyn þess að fjölga millilandaflugvöllum held ég að núverandi formaður iðnaðarnefndar hafi heldur betur tekið vel á þar varðandi Akureyrarflugvöll.

Hv. þingmaður ræddi um gistináttagjald sem að vísu er ekki partur af umfjöllun iðnaðarnefndar heldur annarrar nefndar. Frumvarpi ríkisstjórnarinnar var breytt þannig að tekið var upp gistináttagjald í staðinn fyrir önnur gjöld. Ég er algjörlega á móti því en ég ætla samt að hunskast til að styðja það af því að ég er friðarins maður.

Hv. þingmaður talaði um nauðsyn þess að dreifa ferðalöngum yfir árið og sömuleiðis að koma fleirum af þeim út á land. Ég er sammála báðum markmiðunum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til eftirfarandi hugmynda fyrst menn á annað borð eru að taka upp gistináttagjald: Hefur honum komið til hugar að það gæti verið vel til þess fallið við að koma túristum út á land að hafa gjaldið á suðvesturhorninu hærra en ekkert á landsbyggðinni?

Í öðru lagi: Telur hann að það sé hugsanlega til þess fallið að auka ferðamannastrauminn utan hins hefðbundna tíma að hafa ekkert slíkt gjald, við skulum segja yfir háveturinn eða part af vetrum? Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að menn eigi að reyna að beita markaðslögmálunum í þágu þessa alveg eins og ég tel, og væri nú efni í lengra mál, að beita eigi þeim líka til að vernda suma litla, mjög viðkvæma staði sem sóttir eru af mjög mörgum túristum.

Spurningarnar tvær liggja fyrir sem mér þætti vænt um að fá viðhorf hv. þingmanns til.